154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[19:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir sína framsögu og skýra yfirferð yfir samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038, svolítið óvenjulegt að vera með svona langt bil undir, og umræðuna hér. Áætlanagerð af þessu tagi er ætlað að sýna á spilin um hvað sé í vændum og kveður á um forgangsröðun við byggingu á mikilvægum samgönguinnviðum. Fyrirsjáanleiki er mikilvægur í svona málum, svo áætlun eins og þessi er mikilvæg í eðli sínu.

Eins og við þekkjum hefur líka hver og einn sína skoðun á upplegginu. Ég er viss um að það á ekki bara við um okkur sem erum hér inni, okkur 63, heldur bara fólk almennt og þetta höfum við svo sem heyrt í umræðunni hér í dag og umræðan mun halda áfram inn í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég á sjálf ekki sæti í þeirri nefnd. Það eru því ja, má kannski segja tvö atriði sem mig langar að ræða hér við fyrri umræðu um málið og beina því til nefndarinnar að taka hliðsjón af. Það eru annars vegar almenningssamgöngur og borgarlína og hins vegar málefni fatlaðs fólks í samgöngum, efni sem ég hef raunar áður rætt, en alveg eins og það þarf að ræða ólíka vegi oft og mörgum sinnum er þetta líka atriði sem ég tel mikilvægt að ræða um og halda til haga. Ég fagna þeim áherslum sem finna má víða í tillögunni, til að mynda því að undir markmiði um greiðar samgöngur er sérstaklega kveðið á um að, með leyfi forseta:

„Unnið verði að áframhaldandi uppbyggingu hágæða almenningssamgangna, Borgarlínu og annarra samgöngumannvirkja á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.“

Bættar almenningssamgöngur, sér í lagi á þéttbýlum stöðum, eru líklega veigamesti staki þátturinn í því að hér flæði samgöngur vel og til að stuðla að því að við getum náð markmiðum í loftslagsmálum. Það er ljóst að ef ferðum þeirra stöku bíla sem fara um göturnar fækkar þá minnkar álag á samgöngumannvirki, slit á vegum verður minna og það má ætla að það dragi úr svifryksmengun, sér í lagi hér á höfuðborgarsvæðinu og öðrum þéttbýlum svæðum þar sem hún er kannski mest vandamál. Að efla almenningssamgöngur skilar því miklum ávinningi fyrir bætt loftgæði og heilnæmara umhverfi og áhrifin á höfuðborgarsvæðinu eru ótvíræð.

Undirritun samgöngusáttmálans markaði tímamót fyrir framtíðarsýn um umhverfisvænni samgöngur. Borgarlínan er lykilþáttur í uppbyggingu nýrra og fjölbreyttari ferðamáta hér á suðvesturhorninu og í aukinni hlutdeild almenningssamgangna í vali á ferðamáta, enda miða spár við að fjöldi farþega á höfuðborgarsvæðinu muni vaxa úr 11.000 sem var á síðasta ári í 20.000 á næstu fimm árum, sem gerir tæplega 100% aukningu á sex árum. Ég er þeirrar skoðunar að samgöngusáttmálinn og borgarlínuverkefnið sé nauðsynlegt fyrir jákvæða þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu.

Í tillögunni er einmitt lögð áhersla á almenningssamgöngur og gert ráð fyrir uppbyggingu almenningssamgangna vegna flugs og ferjusiglinga auk almenningssamgangna, þ.e. bæði á landsbyggðinni sem og áframhaldandi uppbyggingu borgarlínu og annarra mikilvægra samgöngumannvirkja. Allar tölur benda til þess að fjölbreytt virkni fólks í mismunandi ferðamátum sé að aukast. Það eru fleiri sem fara um hjólandi og gangandi og nýta sér alls konar smáfarartæki til að koma sér á milli staða og við erum, held ég, öll sammála um að til þess þarf innviði.

Virðulegi forseti. Í samgönguáætlun kemur fram að meðal lykilviðfangsefna í samgöngumálum á næstu árum verði þarfir fatlaðs fólks í samgöngum og því fagna ég. Ef íslensku samfélagi er alvara um að fatlað fólk sé virkir þátttakendur í samfélaginu, til að mynda á vinnumarkaði, verður fatlað fólk að komast leiðar sinnar eins og annað fólk og ég vil leggja áherslu á og segja: Í eins miklum mæli og hægt er með sömu aðferðum og annað fólk. Í markmiði um jákvæða byggðaþróun segir, með leyfi forseta:

„Tryggt verði að fatlað fólk hafi aðkomu að málefnum sem að því snúa.“

Ég skil alveg hvað hér er verið að gera og segja og það er mikilvægt að fatlað fólk komi að því að móta stefnu og að fatlað fólk sé haft með í ráðum til að þær lausnir sem notaðar verða komi til með að virka þegar á hólminn er komið, því að við vitum það og þekkjum það m.a. úr umræðu um byggingarreglugerð og aðgengilegar byggingar að það er miklu dýrara að gera breytingar eftir á. Það verður að huga aðgenginu frá byrjun og það sama gildir í samgöngum. En ég vil leggja áherslu á að það megi ekki túlka þetta annars ágæta markmið mjög þröngt því að allar samgöngur þarf að hugsa með þarfir fatlaðs fólks í huga, ekki að hugsa í sértækum lausnum. Mér fyndist allt í lagi að nefndin tæki á því a.m.k. snúning, til að mynda með Öryrkjabandalaginu eða ráðuneytinu eða fleiri aðilum, um það hvort þessi setning ætti e.t.v. að vera opnari. Á því eru örugglega kostir og gallar en ég tel alla vega mikilvægt að fatlað fólk hafi almenna aðkomu að því sem lýtur að samgöngumálum.

Í aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 er fjallað um bætt aðgengi fatlaðs fólks að almenningssamgöngum milli byggða og aðgengismál í orkuskiptum. Þar er vísað í að horft verði til skýrslna sem gerðar hafa verið, annars vegar skýrslu ÖBÍ um ástand á biðstöðvum Strætós og hins vegar skýrslu um stöðu fatlaðs fólks í samgöngum. Ég held að það sé mikilvægt að þessar skýrslur hafi verið unnar og það eru sláandi niðurstöður sem koma fram, m.a. um það að á innanlandsflugvöllum eru engin tæki til að flytja fatlaða farþega um borð í flugvélar. Úr þessu þarf auðvitað að bæta og ég fagna því að þetta sé meðal þess sem er á aðgerðaáætluninni.

Það er nefnilega þannig að fatlað fólk verður ekki virkur þátttakandi í samfélaginu nema það komist á milli staða í samfélaginu eins og annað fólk. Fýsískt aðgengi skiptir þar máli, þ.e. að þú komist upp í farartækið sem flytur þig á milli staða og að þú getir athafnað þig við að hlaða bílinn þinn ef hann er rafmagnsbíll. En það er fleira sem skiptir þar máli; viðmót og það sé gert ráð fyrir því að alls konar fólk með alls konar þarfir sé að nota samgöngukerfinu okkar. Það skiptir líka máli. Ég ætla að biðja umhverfis- og samgöngunefnd að taka þessi orð með sér inn í sína vinnu um samgönguáætlunina og treysti því að ráðherrann verði með augað á þessum málum.