154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[20:24]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028. Nú er þessi áætlun lögð fram í einu skjali. Þar er stefnan í samgöngumálum sett og helstu markmið sem vinna skal að. Áætlunin tekur mið af annarri stefnumörkun stjórnvalda, svo sem byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun, og í henni er fjallað um fjáröflun til samgöngumála, en eins og ég hef ítrekað sagt úr þessum ræðustól hafa samgöngur áhrif á alla. Þær eru stærsta byggðamálið en jafnframt heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál og menningarmál. Skipulag og uppbygging samgangna ræður mjög miklu um samfélagsþróun, bæði til lengri og skemmri tíma. Hér þarf því að vanda til verka. Grundvöllur sjálfbærra byggða og sveitarfélaga um land allt eru öflugar og tryggar samgöngur innan og milli sveitarfélaga.

Hér næ ég aðeins að koma inn á örfá atriði en í samgöngumálum er oft stutt á milli gleði og vonbrigða eins og hér hefur ítrekað komið fram í dag. Í þeirri áætlun sem hér er lögð fyrir þingið eru stigin mörg mjög mikilvæg skref en vissulega markast næstu ár af því efnahagsástandi sem við glímum nú við og því er farið hægar í nýjar vegaframkvæmdir en ég hefði kosið við bestu aðstæður. Það er samt alltaf gleðiefni að sjá verkefnin sem eru í vinnslu og áfangana sem hafa náðst síðan við ræddum samgönguáætlun síðast hér í salnum.

Mig langar að nefna nokkur verkefni úr síðustu áætlun sem komin eru til framkvæmda, t.d. veg til Borgarfjarðar eystri, en með því hefur síðasti þéttbýliskjarni landsins fengið vegtengingu með bundnu slitlagi. Það sér fyrir endann á framkvæmdum við flugstöð og flughlað á Akureyri. Nýtt slitlag er komið á Egilsstaðaflugvöll. Tengivegafé hefur nýst til að ljúka við lagningu bundins slitlags á Upphéraðsvegi þannig að nú er hægt að keyra hringinn frá Egilsstöðum um Löginn á bundnu slitlagi. Þá eru framkvæmdir við stofnvegi úr höfuðborginni í gangi, margt hefur gerst á Vestfjörðum og einbreiðum brúm á hringveginum fækkar jafnt og þétt.

Það eru mér samt líka ákveðin vonbrigði að sum þeirra verkefna sem áttu að vera hafin samkvæmt áætlunum og uppfærðum áætlunum sem hér voru samþykktar munu dragast enn um sinn. Við höldum samt áfram jafnt og þétt, en vissulega erum við ekki að verða uppiskroppa með verkefni í vegamálum og verðum það raunar mjög seint á Íslandi.

Eins og fram hefur komið í umræðunni hér í dag fjallar samgönguáætlun um margt annað en lagningu vega, hún fjallar um flug, hafnir, höfuðborgasáttmálann, jarðgöng, reiðvegi, hjólastíga, loftslagsmál, viðhald eigna, sjóvarnir, vegþjónustu og fleira og fleira. Ég ætla sérstaklega að geta þess hvað ég er ánægð með varaflugvallargjaldið og hvað það mun breyta miklu um uppbyggingu flugvallanna og vil draga það fram að þess er sérstaklega getið að festa eigi loftbrúna í sessi sem er að nýtast íbúum landsbyggðarinnar mjög vel og vil ég leggja áherslu á að hún verði ekki aðeins fest í sessi heldur líka þróuð áfram.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að venda mínu kvæði í kross og beina sjónum að áskorunum í samgöngumálum á Austurlandi til að draga fram að það þarf að halda jafnt og þétt áfram framkvæmdum þar eins og í öðrum landshlutum. Til að Austurland blómstri enn frekar þarf góðar samgöngur og til að sameiningar sveitarfélaga skili þeim ávinningi sem stefnt er að þarf miklu betri samgöngur en í dag. Í nýsamþykktu svæðisskipulagi Austurlands 2022–2044 er dregin saman og sett fram sameiginleg stefna sveitarfélaganna í landshlutanum um framtíðarsýnina. Það er mikilvægt verkfæri við forgangsröðun samgönguframkvæmda þótt forgangsröðunin verði seint hafin yfir allan vafa. Bráðnauðsynleg samgönguverkefni á Austurlandi eru mörg dýr en þar verða líka til mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið og þau geta orðið enn meiri.

Fyrst vil ég nefna Austfjarðagöng. Í samgönguáætlun, sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum 12. júní 2020, var samþykkt að fara í þessi göng og í nefndaráliti með þeirri samgönguáætlun segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.“

Það voru því vonbrigði að nú er ekki lagt upp með verkefnið sem eina heild. Ekki síst eru það vonbrigði í ljósi veðursins sem gekk yfir í lok mars á þessu ári og í rauninni greiningar í skýrslu [Rannsóknarmiðstöðvar] Háskólans á Akureyri þar sem kom viðauki út við þá skýrslu snemma á þessu ári þar sem farið var yfir ábata af þessum göngum ásamt öðrum. En það sem er fyrst og fremst mikilvægt núna er að það takist að fara hratt í að hefja vinnu við jarðgangaáætlunina og það verði sem fyrst hafist handa við Fjarðarheiðargöng því að dragist upphaf framkvæmda þar tefjast ekki aðeins aðrar framkvæmdir á Austurlandi heldur allar jarðgangaframkvæmdir í landinu.

Þá er það Suðurfjarðarvegur. Vegurinn milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvíkur er með hættulegustu köflum á hringveginum. Þar eru langir kaflar sem ekki uppfylla öryggisstaðla, sérstaklega í sunnanverðum Fáskrúðsfirði og í fjarðarbotnum þar sem jafnframt eru fjórar einbreiðar brýr, allar með óviðunandi burðarþol, sem skapa margþættar hindranir fyrir atvinnulífið á svæðinu. Ég fagna því sérstaklega að nú er fyrsti hlutinn, vegurinn um Reyðarfjarðarbotn, kominn inn á fyrsta tímabil áætlunar. Þar er mikil krafa um að byrja sem fyrst og mikilvægt að í framhaldinu verði hver kaflinn tekinn fyrir af öðrum.

Vegur um Öxi hefur verið á dagskrá lengi. Farið var í vinnu við undirbúning á árunum 2007 og 2008 en verkinu var svo frestað 2009 vegna efnahagshruns. Þegar verkið kom aftur inn á áætlun var orðin tíu ára seinkun og nú stefnir í að það verði 20 ára seinkun. Vegurinn eins og hann er uppfyllir ekki öryggisstaðla og því er ekki talið forsvaranlegt að halda honum opnum yfir veturinn þó að heimamenn treysti sér til að keyra hann. Þannig lengist leiðin milli Djúpavogs og Egilsstaða um 70 km yfir veturinn. Það að byggðarlögin séu nú í sama sveitarfélagi gerir kröfu um betri samgöngur en 152 km ferð aðra leið.

Aðrar brýnar framkvæmdir á Austurlandi eru fjölmargar. Vegur upp af Efri-Jökuldal upp að Stuðlagili hefur verið að þokast áfram með sérstakri fjárveitingu og fjármagni úr tengivegapotti samgönguáætlunar og heldur væntanlega þannig áfram. Það eru svo fjölmargir vegir á Héraði og Fjörðum sem íbúar aka daglega til vinnu og skóla sem þarf að viðhalda og koma á bundnu slitlagi. Lagarfljótsbrúin er á langtímaáætlun og val á nýju brúarstæði stendur yfir, líka í ljósi endurbóta á flugvellinum. Jarðgöng milli Vopnafjarðar og Héraðs eru nauðsynleg og eru til frekari skoðunar samkvæmt tillögunni. Sérstök fjárveiting er ætluð til að breikka eða skipta út einbreiðum brúm. Á hringveginum eru 30 einbreiðar brýr. 11 þeirra eru á Austurlandi en tvær á Norðurlandi, fyrir utan þessar fjórar brýr á Suðurfjarðarveginum eru sjö í gamla Djúpavogshreppnum. Þessum brúm megum við ekki gleyma. Það þarf líka að bæta tenginguna á mörkum landshlutans, eins og komið hefur verið inn á hér, með brú á Jökulsá á Fjöllum og úrbótum í Hvalnesskriðum eða göngum undir Lónsheiði.

Allar samgöngubætur eru liður í að bæta samkeppnishæfni landsins og einstakra landshluta. Þær eru grundvöllur frekari verðmætasköpunar og velferðar og því mjög varhugavert að líta á tiltekna samgönguframkvæmd sem verkefni fyrir tiltekna byggð. Hún er hagsmunir allra landsmanna.

Ég hefði gjarnan viljað fara yfir fleiri verkefni, t.d. á Norðurlandi eystra, en allmargir þingmenn hafa komið inn á þau verkefni hér og kannski fer ég bara seinna í ræðu um þau. En til að við komumst áfram veginn núna er brýnt að ljúka vinnu innviðaráðuneytisins með fjármála- og efnahagsráðuneytinu við endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins af ökutækjum í umferð og útfærslu veggjalda þar sem það á við. Og, virðulegi forseti, þetta verður ekki of oft sagt: Þetta er brýnasta verkefnið núna, að finna út hvernig við ætlum að fjármagna allar þessar brýnu framkvæmdir sem fram undan eru.