154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[20:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Nú eigum við að fara að tala um krónuna. Nei, að öllu gamni slepptu þá er það auðvitað alveg rétt að það er býsna sérstakt að vera að gera áætlanir, verkáætlanir í samgönguáætlun með öðru, þetta er nú líklega einna helst hér, til lengri tíma litið, og vera svo að vinna fjárlög frá ári til árs og svo þessa tiltölulega nýtilkomnu fjármálaáætlun til fjögurra ára sem engu að síður hefur frá fæðingu, 2015, 2016, vegna alls konar utanaðkomandi þátta, tekið breytingum örar en hún hefði þurft að gera. Þetta fer svolítið illa saman. Ég ætla samt ekki að segja hér að værum við með stöðugri gjaldmiðil þá væri þetta ekki reyndin, að þá næðum við þessu öllu í gegn. En ég hef hins vegar þá bjargföstu skoðun að af því að við höfum svo lengi sem elstu menn muna búið við mjög sveiflukenndan gjaldmiðil sem hefur kennt okkur, og það er eiginlega bara í vöðvaminninu á okkur, og áætlanir eru mjög ólíklegar til að standast þá er það farið að hafa ákveðin áhrif á hvernig við umgöngumst akkúrat þessar títtnefndu áætlanir. Þannig að agaleysið er eiginlega orðinn svolítill fylgifiskur okkar. Við búumst alltaf við að eitthvað gerist. Það er svolítið þannig.

Síðan er þessi umræða sem hv. þingmaður var með, að koma með svona plagg og af því að það er búið að ákveða það hér á þingi, í þingsályktunartillögu til 15 ára, að fara í þessar framkvæmdir þá eigi það standa, ef ég skildi hann rétt. Það er öllu flóknara í framkvæmd og við værum nú býsna fljót að þurrausa ríkissjóð langt fram í tímann ef það væri þannig, auðvitað þarf að bregðast við. En þetta er eilífur línudans. Það er engin spurning.