154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Mér finnst rétt að segja þetta hér einu sinni enn: Í lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er hvergi talað um armslengd eða heimild gefin fjármálaráðherra til að framselja vald við söluna. Lögin eru um hvað fjármálaráðherra má gera og eftir hvaða meginreglum á að fara. Þegar ráðherrar og stjórnarþingmenn eru spurðir um hæfi fjármálaráðherrans eða hvort hann hafi farið að lögum við sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka eru svörin oftast um einhverja ímyndaða armslengd sem hafi komið í veg fyrir að fjármálaráðherrann vissi hvaða ákvarðanir hann var að taka eða að lögin um söluna hafi ekki verið nægilega skýr.

Svo virtist um tíma að málið væri afgreitt með umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis með áliti meiri hluta þeirrar nefndar þar til bréfið kom frá umboðsmanni Alþingis. Umboðsmaður Alþingis spurði um hvernig ráðherrann hefði gætt að hæfi sínu þegar ákvörðunin var tekin um samþykkt tilboðanna í hlutinn sem selja átti og lagalega og stjórnskipulega ábyrgð hans á því að söluferlið færi fram í samræmi við lög. Spurningar umboðsmanns Alþingis voru málefnalegar og það er auðvitað afar mikilvægt að ráðherra viti hvaða skyldum hann hefur að gegna og að hann axli ábyrgð á gjörðum sínum. Hinum sérstöku hæfisreglum stjórnsýslulaga er ætlað að stuðla að því að almenningur geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt. Með þeim ætti að vera vörn fyrir frændhygli og spillingu. Ábyrgð fjármálaráðherrans er skýr samkvæmt lögum: Hann gætti ekki að hæfu sínu. (Forseti hringir.) En þetta höfum við reyndar vitað í eitt og hálft ár. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)