154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Heilbrigðisþjónustu ber oft á góma í þessum ræðustól. Aldrei hafa meiri fjármunir verið lagðir í heilbrigðiskerfið en þjónustan virðist samt ekki taka stakkaskiptum. Hvað veldur? Eftir heimsfaraldur vegna Covid tókum við stórt skref inn í framtíðina með fjarfundum, fjarkennslu og fjarvinnu. Það skref gjörbreytti tækifærum allra íbúa óháð búsetu og stuðlaði þannig að jákvæðri byggðaþróun. En tók heilbrigðisþjónustan einnig stökk til framtíðar? Nei, heilbrigðisþjónustan virðist enn sitja í gamla farinu. Enn verður að hitta lækna í staðarviðtali með tilheyrandi ferðakostnaði fyrir einstaklinga og ríkið sjálft. Hvernig stendur á því að við veljum ekki hagkvæmustu leiðina sem tryggir um leið bestu þjónustuna óháð staðsetningu? Öflug fjarheilbrigðisþjónusta stuðlar að gríðarlegum sparnaði þegar þúsundir manna hér á landi þurfa ekki að fara fram á endurgreiddan ferðakostnað frá Sjúkratryggingum Íslands því þeir fá alhliða heilbrigðisþjónustu með tækninni í heimabyggð.

Mig langar einnig að minnast á biðlistakerfið innan heilbrigðiskerfisins en þar er óviðunandi ástand. Lausnin liggur fyrir augum okkar allra með aðferðafræði sem gripið var til þegar 1.800 manns voru á biðlista eftir liðskiptaaðgerð. Sjúkratryggingar Íslands óskuðu eftir tilboðum í þær aðgerðir frá heilbrigðisfyrirtækjum á einkamarkaði. Gengið var til samninga, biðlistarnir styttust, fólk fékk heilsu sína á ný og aðgerðirnar leiddu samhliða af sér mikinn sparnað fyrir ríkið. Því segi ég: Notum áfram þessa aðferðafræði, styttum verulega biðlista í heilbrigðiskerfinu, Sjúkratryggingar Íslands verðmeta hvert verk þannig að hægt sé að vinna á biðlistum af sérmenntuðu heilbrigðisstarfsfólki hér á landi. Þá aðferðafræði nota önnur lönd í kringum okkur sem við berum okkur gjarnan saman við. Þar skilar blanda af ríkisrekstri og einkarekstri bestu heilbrigðisþjónustunni fyrir alla íbúa (Forseti hringir.) og útrýmir biðlistum. Verum ekki eftirbátar þeirra. Tryggjum með þessari aðferðafræði öllum öfluga heilbrigðisþjónustu hér á landi.