154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það eru stór og mikilvæg verkefni fram undan, verkefni sem skipta sköpum þegar kemur að velsæld þjóðar. Við höfum alla burði til að gera vel, alla burði til að auka velsæld á þann hátt að hún skili ekki eingöngu slíkri velsæld til núlifandi kynslóða heldur líka kynslóða framtíðarinnar. En tíminn vinnur ekki með okkur og verklagið gerir það sannarlega ekki heldur. Hér eru teknar ákvarðanir eftir fyrirframskilgreindum leiðum. Þær eru vel ígrundaðar og það er vel vandað til, og hvað gerist svo? Það er hikstað, tafið, endurskoðað og jafnvel bakkað, það er alla vega stoppað, bakkað svolítið aftur og mögulega stoppað aftur. Ég ímynda mér að margir telji eðlilega að ég sé hér að tala um almennt vinnulag ríkisstjórnarinnar, en ég er reyndar að tala um skilaboðin frá haustfundi Landsvirkjunar sem ég sat nú í morgun. Eftir stöðnun og vandræðagang síðustu ára ríkir einfaldlega óvissa um getu okkar til að standa við skuldbindingar í loftslagsmálum og til að standa undir orkuþörf ört vaxandi íslensks samfélags, óvissa um getu til að standa við það að framleiða græna orku fyrir fólkið okkar.

Svo var spurt á fundinum: Hvað þarf til að laga þetta? Svörin voru verulega skýr. Það þarf samstöðu og samstillt átak og það þarf að fara af stað. Það sem við þurfum allra helst á að halda núna er að hætta að láta allt snúast um átökin við ríkisstjórnarborðið. Við þurfum starfhæfa ríkisstjórn, við þurfum ríkisstjórn sem ræður við verkefnið sem hún hefur tekið að sér. Við þurfum ríkisstjórn sem einbeitir sér að alvarlegri stöðu í efnahagsmálum og tekur raunverulega utan um heimili landsins og við þurfum starfhæfa ríkisstjórn sem skilur stöðuna í orkumálum landsins og framkvæmir.