154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í gær sagði fjármálaráðherra af sér í hálfkveðinni vísu. Almenningur reynir nú að botna vísuna. Forsætisráðherra sagði að þau fjármálaráðherra hefðu rætt málið frá öllum hliðum fyrir blaðamannafundinn í gær. Hvort formaður Framsóknarflokksins var á þeim fundi er ekki vitað. En er það virkilega svo að það var ekkert plan tilbúið? Forystufólk í ríkisstjórninni hafði a.m.k. fjóra daga til að undirbúa sig og ætlar að gefa sér núna eina fjóra daga í viðbót. Það er boðið upp á biðleiki þegar samfélagið þarf á forystu og stjórnfestu að halda. Á meðan heimilum og fyrirtækjum blæðir í vaxta- og verðbólgustormi þá eru skilaboð stjórnvalda til almennings svo vitnað sé til mbl.is, með leyfi forseta:

„Af þeim ástæðum ætla stjórnarflokkarnir að nota næstu dægur til þess að skerpa á aðaláherslum ríkisstjórnarinnar og efla liðsandann í stjórnarliðinu. Í því felst m.a. að reynt verður að kortleggja hvað það er sem veldur mönnum mestu hugarangri“ — vel að merkja, það er verið að tala um hugarangur stjórnarliðsins og ráðherra, ekki almennings — „og hvernig sefa megi þær áhyggjur „í hvelli“, eins og einn stjórnarþingmaður orðaði það.“

Þessi staða, virðulegi forseti, er ekki einkamál formanns Sjálfstæðisflokksins eða ríkisstjórnarinnar. Óvissa í stjórnmálum ýtir undir efnahagslegan óstöðugleika sem bitnar síðan á heimilum landsins og fyrirtækjum og það er ekki boðlegt á þessum tímum. Ríkisstjórnin getur ekki haldið að hún lifi í einhverjum hliðarveruleika eða tómarúmi við umheiminn. Það ríkir ringulreið og það er ákveðið neyðarástand núna í gangi. En það fyrsta sem ríkisstjórnin hugsar um er að tryggja sér sæti í björgunarbátnum. Almenningur skal gjöra svo vel að bíða rólegur á meðan stjórnin eflir liðsandann og kortleggur hvar hver eigi að sitja. Þetta er orðið það farsakennt að Dario Fo hefði ekki getað gert þetta betur.