154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það er stundum erfitt að bera saman ríkisstjórnir með einhverjum hlutlægum mælikvörðum en í dag getum við það, vegna þess að við getum borið saman hvernig ríkisstjórnir standa sig í því að segja af sér og skipta um ráðherra. 30. september 2009 sagði Ögmundur Jónasson af sér sem heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. 1. október tók Álfheiður Ingadóttir við því embætti. Það tók dag að fylla það skarð, einn dag. Nú stefnir í að það taki nánast viku að fylla sæti fjármála- og efnahagsráðherra. Heila viku tekur það að hrókera innan ríkisstjórnar sem tók dag í miðjum eftirleik efnahagshrunsins. Ef þetta er ekki skýr birtingarmynd þess að þessi ríkisstjórn er eins verklaus og hugsast getur þá veit ég ekki hvað.