154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:40]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Já, það er óneitanlega skrýtið að hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma skuli sitja fyrir svörum fjármála- og efnahagsráðherra sem hefur í raun og veru ekkert um fjármál ríkisins og efnahag ríkisins til lengri tíma, til framtíðar að segja vegna þess að hann er að yfirgefa embættið eins og þekkt er. Það eru sennilega rétt rúmlega 30 einstaklingar á Íslandi sem eru hissa á því að þessi úrskurður umboðsmanns Alþingis varð eins og hann varð. Það hefur verið talað um það í eitt og hálft ár að þetta yrði hin augljósa niðurstaða í málinu.

Fimbulfambið í ríkisstjórninni, hringlandahátturinn er algerlega með ólíkindum. Það er verið að tala um að færa ráðherra á milli stóla og miðað við það hvað flokkarnir eru ósamstiga í þessu ríkisstjórnarsamstarfi þá vitum við ekkert hvert málaflokkar ríkisstjórnarinnar eru að fara núna á næstu vikum. Það liggur ofur einfaldlega ekki fyrir. Þrátt fyrir að allir hafi getað sagt sér — allir — að þetta yrði niðurstaðan í áliti umboðsmanns. Það er alger ringulreið í ríkisstjórn landsins. Menn vita ekkert hvort menn eru að koma eða fara. Og það er algerlega óboðlegt að bjóða upp á það að fyrir svörum eigi að sitja fjármála- og efnahagsráðherra sem er að yfirgefa stólinn og hefur ekkert um það að segja til framtíðar litið hvernig málum verður stýrt í því ráðuneyti sem þar er undir.