154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hér er rætt um fimbulfamb ríkisstjórnarflokkanna á meðan fimbulfambið er nú allt hjá stjórnarandstöðunni í þessu máli með mjög ómerkilegum hætti í því leikriti sem þau setja hér á. Fimbulfamb um framtíðina, hvað gerist, næstu skref, tekur formaður Sjálfstæðisflokksins við öðru ráðherraembætti o.s.frv. Svo er talað um vandræðalega og óþroskaða pólitík. Ég þakka nú fyrir að við erum ekki á sama þroskastigi og þeir sem viðhafa þau orð hér. Það er alveg magnað eftir allt sem á undan er gengið í þeirri umræðu að þetta fólk í stjórnarandstöðunni sem stígur hér fram veit ekkert hvað það á að geta spurt formann Sjálfstæðisflokksins um og fjármálaráðherra til hátt í tíu ára. Það veit ekkert hvað það getur spurt hann um. Þá ætla ég bara að benda þeim á það að úr þessari ómögulegu ríkisstjórn eru tveir aðrir ráðherrar til svara. Ég geri ráð fyrir að hann fái þá engar spurningar hér á eftir undir þeim dagskrárlið. Nei, hér er stjórnarandstaðan að gjaldfella sig illa eina ferðina enn. (Forseti hringir.) Það er svo sem þekkt uppskrift og gengur afskaplega vel hjá þeim.