154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:51]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Þar sem kemur eiginlega mest á óvart í þessari umræðu er hvað þingmönnum Sjálfstæðisflokksins finnst litlu máli skipta hvort hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sitji í stólnum eða ekki. Menn tala eins og þessi atburðarás sem hér er farin af stað hafi bara engin áhrif, skipti bara ekki nokkru máli. Það er búið að liggja fyrir í eitt og hálft ár að þetta gæti orðið niðurstaðan. Samt er það þannig út til samfélagsins að menn vita ekkert hvað er að fara að taka við. Það er talað um einhverjar hrókeringar á milli flokka í ríkisstjórninni. Við vitum að ríkisstjórnarflokkarnir eru mjög ósammála innbyrðis þannig að við vitum ekkert hvaða stefna verður hér rekin til framtíðar þar sem flokkarnir eiga algerlega sjálfdæmi um sín ráðuneyti og skipta sér helst ekki mikið af öðrum nema í einhverjum skeytasendingum á fundum úti í bæ. Svo er það algjört lykilatriði að það er búið að klúðra málum þannig að það er ekkert traust úti í samfélaginu til þess að halda áfram sölunni á Íslandsbanka. Það á eftir að vinna mikla vinnu til þess að endurheimta það traust. Það er algjört lykilatriði sem hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (Forseti hringir.) kom inn á hér áðan, að við vitum ekkert hvort þessir tugir milljarðar skili sér inn (Forseti hringir.) líkt og gert er ráð fyrir á næsta og þarnæsta ári. Það er algjör lausung (Forseti hringir.) og lausatök á stjórn ríkisins og það er ekki gott.