154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[11:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að taka upp þetta mál hér í fyrirspurn til mín. Þetta er risastórt mál., þetta er brýnt mál og það er ekki tilviljun að þetta fær mikið vægi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar undir vinnuheitinu Gott að eldast. Það tengist þessari umræðu um hjúkrunarheimilin. Þurfum við að gera betur í uppbyggingu hjúkrunarheimila? Já. Það var sett gríðarlega mikið fjármagn á fjárlög undanfarin ár sem ekki hefur, því miður, tekist að koma í vinnu og tekist að nýta, það hafa orðið tafir. Við erum með framkvæmdir í gangi á Hornafirði, á Húsavík, í Reykjanesbæ og víðar um stækkun og fjölgun rýma. Síðasta stóra rýmið sem var opnað var á Sléttuvegi í Reykjavík. Það hafa því miður orðið tafið þar. Árlega er lögð fram framkvæmdaáætlun til fimm ára um byggingu og endurnýjun hjúkrunarrýma.

Ég hef í samvinnu við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skoðað að fara nýjar leið til að flýta fyrir ferlinu og auglýst eftir rýmum hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem við erum farin að finna svolítið fyrir vöntun. Það hefur leitt af sér tvö verkefni en þau eru ekki á dagskrá fyrr en eftir tvö ár þannig að við höldum áfram í þeirri leit, það er mjög brýnt. Að sama skapi verðum við að gera betur á öllum sviðum. Við vorum á mjög góðum fundi með Landspítalanum einmitt í gær sem fékk yfirskriftina Treystum böndin og það snýr að samspili allra þátta, samspili stofnana og ég get farið yfir það í seinna andsvari um það aukna samspil sem hefur skilað miklum árangri, sérstaklega fyrir spítalann en auðvitað fyrst og fremst fyrir fólkið sem þarf þjónustuna