154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

tíðni og orsakir sjálfsvíga á Íslandi.

[11:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að taka upp þetta málefni hér. Við erum nýkomin í gegnum septembermánuð, gulan septembermánuð, þar sem allir tóku höndum saman um að vekja athygli á þessu málefni. Þetta er, getum við sagt, málefni sem er þvert á samfélagið. Þarna skipta forvarnir miklu máli. Þarna skiptir snemmtæk íhlutun miklu máli. Þarna skiptir stefna í ýmiss konar viðbrögðum á heilbrigðissviði máli. Ég nefni fíkniefnaþjónustu, þjónustu við fólk í ýmiss konar fíkn. Við erum með mjög víðtæka áætlun í vinnu og forvörnum á þessu sviði. Við erum með fjölmörg öflug félagasamtök, sem hv. þingmaður kom inn á og ég kom inn á hér; Píeta samtökin sem stóðu fyrir fundi og nýlegri rannsókn, mjög athyglisverðri — ég komst því miður ekki á þann fund — þar sem þessar niðurstöður voru kynntar.

En af því að hv. þingmaður spurði hvað sá er hér stendur ætlaði að gera þá hef ég núna nýverið sett aukið fjármagn til embættis landlæknis til að festa stöðu fulltrúa sem heldur utan um sjálfsvígsáætlunina til að setja aukinn þunga í að fylgja henni eftir. Sú áætlun er í fjölmörgum liðum, mjög öflug áætlun sem haldið er utan um hjá embætti landlæknis.