154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

aðgerðir gegn ópíóíðafíkn.

[11:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Indriða Stefánssyni fyrir spurninguna. Spurningin var einföld: Er eitthvert samstarf á milli heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra eða ráðuneyta þegar kemur að fíknisjúkdómum í þeim tilgangi að ráðast að rót vandans og rannsaka það nákvæmlega?

Það væri nú kannski væri hægt að draga fram samstarf á þessu sviði en það er ekki raunverulega markviss rannsókn á þessu sviði, svo ég segi það nú bara strax. Hins vegar dregur hv. þingmaður hér fram mjög athyglisverðan punkt af því að þetta er samofið félagslegt og heilbrigðistengt verkefni. Og já, það er rétt, við fórum hér á vormánuðum í átak og settum markvissa áætlun í gang sem sneri að því að bregðast við þeim ópíóíðafaraldri sem er í gangi. Það er augljóst að við þurfum að koma niður á fjölmörgum sviðum. Það birtist mér mjög í þeirri vinnu og þeim samtölum sem við höfum tekið í tengslum við það að það er full þörf á því að fara betur yfir skörunina á milli þess félagslega og heilbrigðistengda af því að öll erum við jú bara manneskjur sem erum að takast á við lífið og tilveruna og þetta dagsdaglega. Við þurfum þak yfir höfuðið og framfærslu og þjónustu og fólk er á mjög misjöfnum stað í sinni tilveru. Þannig að ég ætla nú kannski að svara þessu svona til að byrja með.

En ég mun alveg taka það með mér hvort við ættum ekki jafnvel að bæta þessu við í þá vinnu sem við erum með þegar kemur að stefnu í fíkniefnasjúkdómum og skaðaminnkunarhópnum sem er kominn í gang núna.