154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um það, en hann nefnir hér að ekki séu komin fram áhrif verðbólgu og vaxta. Líklega eru heldur ekki komin áhrif af til að mynda breytingum á skattkerfinu, til að mynda breytingum á barnabótakerfinu, sem og til að mynda þeim breytingum sem hafa orðið á húsnæðisstuðningi, þannig að það er auðvitað margt sem er ekki komið inn. Ég held að stóra myndin hér sé að þeim breytingum sem við höfum verið að ráðast í er ætlað að draga úr fátækt. Ég er sammála hv. þingmanni um að þessi skýrsla segi okkur að við þurfum að gefa í þær aðgerðir. Það sem mér finnst mikilvægt er að við getum átt samtal hér í þinginu því að fátækt er ekki eingöngu um að setja fjárhæðir í að lyfta öllum. Við þurfum að horfa á það sem ég fór yfir hér áðan, aðgengi að menntun, heilsu, tíðni afbrota, félagslegan stuðning. Þetta snýst auðvitað um krónur og aura en þetta snýst líka um hvernig samfélag við viljum byggja. Þess vegna fagna ég svo mjög að fá tækifæri til að eiga samtalið hér í þinginu og vil helst halda því áfram í gegnum þær tillögur sem við eigum eftir að fá á næstu mánuðum um einstaka hópa.