154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:28]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta innlegg. Fyrst aðeins um innflytjendur. Ég er sammála hæstv. ráðherra. Ég held að við þurfum að íhuga mjög vandlega hvort það að veðja á ferðaþjónustu í svona miklum mæli sem stóra drifkraftinn á bak við hagvöxtinn okkar geti til langs tíma farið saman við markmið um að viðhalda tiltölulega jöfnum launastrúktúr í landinu. Ég held að það sé mjög erfitt að samþætta þessi tvö markmið og við þurfum að íhuga það vandlega hvers konar atvinnustefnu þetta kallar á. Það er auðvitað ekki sjálfbært til lengdar fyrir íslenskt samfélag ef við viljum viðhalda sterku og öflugu velferðarþjóðfélagi að veðja svona stórkostlega á atvinnugreinar sem hafa, eins og ferðaþjónustan, beinlínis bjargað okkur eftir hrunið og verið stórkostleg lyftistöng fyrir hvern landshluta á fætur öðrum, þar sem engu að síður er mjög erfitt að ná fram aukinni framleiðni og skapa hálaunastörf í greininni.

Varðandi leikskólana þá er ég alveg hjartanlega sammála hæstv. forsætisráðherra og held að það sé gott að þetta innlegg komi fram. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland ætti að stíga sams konar skref og hafa verið stigin á flestum hinum Norðurlöndunum um að lögfesta rétt ungra barna til leikskóladvalar. Þetta kallar auðvitað á mjög víðtækt samstarf milli ríkis og sveitarfélaga. Þar að auki tel ég reyndar æskilegt að lengja fæðingarorlofið, en ekki út í hið óendanlega vegna þess að það hefði mjög slæm jafnréttisáhrif. (Forseti hringir.) En ég held að skynsamlegt væri að lengja fæðingarorlofið um kannski tvo mánuði eða svo og láta þá þennan aukna orlofsrétt fylgja hvoru foreldri um sig til að til þess að lágmarka neikvæð áhrif út frá jafnréttissjónarmiðum.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna á að ræðutími er tvær mínútur í andsvörum.)