154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spyr út í skerðingar í kerfunum. Hv. þingmaður og flokkur hans hefur verið duglegur og ötull talsmaður þess að afnema skerðingar eða endurhugsa kerfið alveg upp á nýtt. Þegar ég var að byrja í pólitík sagði ég þetta líka: Það þarf að hreinsa þetta almannatryggingakerfi, þetta eru endalausir plástrar úti um allt, þetta er algjörlega óskiljanlegt. Síðan þá er búið að gera ýmislegt. Ég held að allt hafi það verið gott. Kerfið er flókið og ég minnist þess til að mynda að við höfum gert einhverjar breytingar. Ég held að ég fari rétt með það að það hafi verið frumvarp frá þingmönnum Flokks fólksins varðandi það að afnema skerðingar á hjálpartækjum (Gripið fram í.)— styrkveitingu, já, bensín- og bifreiðastyrk.

Ég man að ég sat í efnahags- og viðskiptanefnd á þeim tíma sem við vorum að fjalla um þetta og hugsaði: Vá, þetta er fáránlegt. Við erum að styrkja einhvern út af fötlun en ætlum að skerða hann á sama tíma. Ég er alveg sammála því og ég held að við höfum lagað það. Það kann vel að vera og er ekki ólíklegt að fleiri svona dæmi séu í kerfinu sem við þurfum að laga. Þar skal ég fara í lið með hv. þingmanni.

Aftur á móti get ég ekki talað fyrir því að hér eigi ekki að vera neinar skerðingar. Ég lít svo á að þetta kerfi sé gert til að aðstoða þá sem ekki hafa tækifæri til að afla sér nægra tekna með öðrum hætti. Ég veit að það er alltaf samspil hvort þetta á að vera hvetjandi eða ekki. Ég hygg að hv. þingmaður kunni að vera sammála mér í því að það sé óeðlilegt að öryrki sem sé kosinn á þing og fái fín laun eigi engu að síður rétt á fullum greiðslum úr bótakerfinu. Ég sé að hv. þingmaður kinkar kolli þannig að þar erum við sammála. Það er einhver skerðing. Kerfið okkar hlýtur að þurfa að horfa á það að ef fólk aflar mikilla tekna eigi það ekki rétt á því sama úr almennum sjóðum. Ég ætla að ræða um konurnar á eftir.

Virðulegi forseti, því miður náði ég ekki því sem ég var spurð um varðandi staðgreiðslu og persónuafslátt.