154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:34]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Forsætisráðherra benti á í ræðu sinni hér áðan og það kemur fram í skýrslunni að dregið hafi úr fátækt hér á landi á síðustu 20 árum. Þetta er reifað í skýrslunni en þar er eingöngu horft til lágtekjuhlutfalls, með öðrum orðum eru þetta fátæktarviðmiðin. Það gefur hins vegar augaleið að hlutfall tekna segir ekki alla söguna. Það getur verið mikill munur á aðstæðum fólks sem er með sömu tekjurnar, t.d. er munur á þeim sem búa í skuldlausu húsnæði og einhverjum sem eru að leigja á rándýrum leigumarkaði. Gallinn við að kanna aðeins tekjufátækt er að aðrar víddir fátæktar eru ekki teknar inn í myndina. Ekki er skoðað hvort fólk eigi erfitt með að ná endum saman, hvort það búi við skort á efnislegum og félagslegum gæðum, íþyngjandi húsnæðiskostnað o.s.frv.

Þessi eina vídd skýrslunnar sýnir þó ýmislegt sem vert er að staldra við. Þó að lágtekjuhlutfallið hér á landi hafi minnkað lítillega á síðustu 20 árum er staðreyndin sú að 13,5% landsmanna eru undir lágtekjumörkum. Það er bara allt of stór hópur, forseti, sérstaklega þegar það er ljóst, sem bent er á í skýrslunni, að enn stærri hópur lifir rétt fyrir ofan þau lágtekjumörk sem miðað er við, en að lifa rétt fyrir ofan fátæktarmörk er ekki síður áskrift að fátækt en að vera undir mörkunum í skamman tíma. Ef lágtekjumörkin eru hækkuð úr 60% af miðgildi tekna í 70% þá kemur í ljós hve stór hluti lifir rétt fyrir ofan fátæktarmörk. Með þeirri breytingu tæplega tvöfaldast lágtekjuhlutfall hjá einstæðum foreldrum og rúmlega það hjá þeim sem þiggja örorkubætur. Sláandi tölur má einnig sjá þegar staða barna er skoðuð en ef lágtekjumörkin eru hækkuð myndi helmingur barna einstæðra foreldra flokkast undir fátæktarmörkum. Þetta dregur fram mikilvægi þess að greina fátækt ekki aðeins út frá tekjum.

Fátækt hefur minnkað hjá öllum aldurshópum á síðustu 20 árum nema hjá fólki á aldrinum 18–34 ára. Í þeim aldurshóp hefur fátækt aukist á síðustu árum og mælist hæst. Það er áhyggjuefni. Stór hluti þessa hóps er ekki kominn inn á húsnæðismarkaðinn en hækkanir síðustu misseri munu gera honum það enn erfiðara og í skýrslunni er jafnframt bent á að hvorki almannatryggingakerfið né húsnæðis- og barnabætur gagnist þessum hóp á sama hátt og öðrum hópum sem glíma við fátækt. Enn fremur er þetta sá hópur sem er líklegastur til að vera með ung börn, en fátækt á fyrstu árum ævinnar hefur meiri langtímaafleiðingar en fátækt síðar í æsku. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem fædd eru inn í fátækt eiga í verulegri hættu á að fara út í lífið með brotna sjálfsmynd og upplifa sig sem annars flokks samfélagsþegna. Fátækt eykur líka hættu á félagslegri einangrun með alvarlegum afleiðingum fyrir einstaklinga og er fátækt þannig líklegri til að ýta undir frekari jaðarsetningu þeirra hópa sem mest þurfa á aðstoð samfélagsins að halda.

Barnaheill hafa bent á að á Íslandi er hvorki til skilgreining á fátækt meðal barna né opinber stefna eða áætlun um að uppræta fátækt sem börn búa við, en samkvæmt skýrslu forsætisráðherra eru börn hins vegar sennilega sá hópur þar sem inngrip skila hvað mestum árangri til að draga úr þjóðfélagslegum kostnaði. Fátækt hefur því gífurleg áhrif á farsæld barna og því skiptir svo ótrúlega miklu máli að lyfta börnum upp úr fátækt áður en fátæktin nær að valda þeim skaða og takmarka verulega möguleika þeirra á framtíð án fátæktar.

Forseti. Það er hægt að útrýma fátækt barna strax í dag. Samkvæmt skýrslunni myndi það kosta 16,5 milljarða kr. að lyfta öllum börnum yfir lágtekjumörk. Slík aðgerð myndi líka lyfta fullorðnum fjölskyldumeðlimum upp fyrir mörkin. Til að setja þá tölu í samhengi kostar fátækt samfélagið a.m.k. 35 milljarða á hverju ári. Þetta væri metnaðarfull og dýr aðgerð en barnafátækt verður ekki leyst með smávægilegum breytingum á barnabótakerfinu eða öðrum tilfærslukerfum. Það kostar pening að fjárfesta í fólki en það er töluvert dýrara að viðhalda fátækt. Það hefur keðjuverkandi áhrif í gegnum allt samfélagið. Fátækt er ekki eingöngu íþyngjandi fyrir þá einstaklinga sem búa við bág kjör heldur fylgir fátækt kostnaður sem leggst á samfélagið allt. Fátækt hefur bein áhrif á útgjöld hins opinbera en hún leiðir líka til aukinna útgjalda ríkisins vegna óbeinna áhrifa. Slík áhrif geta til að mynda orðið vegna þess að fátækt hefur áhrif á heilsufar og afbrotatíðni, sem leiðir til aukinna útgjalda til heilbrigðismála og til dómstóla, löggæslu og fangelsismála. Þá hefur fátækt jafnframt neikvæð áhrif á framleiðni og hagvöxt. Líkt og ég kom inn á hefur fátækt mikil áhrif á börn og eru þau börn sem alast upp við fátækt líklegri til að lenda sjálf í fátækt þegar þau verða fullorðin og má líta á aðgerðir sem draga úr fátækt sem samfélagslega fjárfestingu þar sem slíkar aðgerðir geta aukið tekjur og dregið úr kostnaði fyrir samfélagið til skemmri en líka til lengri tíma. Þetta er góð fjárfesting.

Í skýrslunni er spurningunni um heildarkostnað samfélagsins vegna fátæktar á Íslandi svarað. Metið er að sá kostnaður sé líklega á bilinu 31,65–92 milljarðar á ári, eða um 1–2,8% af vergri landsframleiðslu. Þetta er gríðarlegur kostnaður og gefur okkur vísbendingu um hvað við getum sett mikið fjármagn í að uppræta fátækt án þess að þurfa alltaf að tala um óhóflegan kostnað, því að við sjáum að þetta er raunverulegur sparnaður inn í framtíðina. Ef við höfum ekki efni á að lyfta fólki upp úr fátækt og tryggja öllum tækifæri til að dafna þá þurfum við að móta hagkerfi sem hvetur til samfélagsgerðar sem ýtir undir velsæld allra. Við þurfum að sníða tilfærslukerfi sem dreifir velmeguninni á réttlátan hátt.

Forseti. Ég hef oft staðið hér og talað um mikilvægi þess að tryggja öllum skilyrðislausa grunnframfærslu. Þetta er stef sem ég held að flestir þekki. Vinsældir hugmynda um borgaralaun hafa samt aukist úti um allan heim, sérstaklega í kjölfar Covid. Eftir margs konar tilraunir í mismunandi löndum úti um allan heim er alltaf að koma skýrar í ljós að þetta er ekkert óraunhæf hugmynd. Ef skoðuð eru gögn bara úr einni rannsókn í Atlanta í Bandaríkjunum þar sem hundruð svartra kvenna fengu greidda 850 dollara á mánuði í tvö ár, kannski rétt rúmlega 100.000 kr. giska ég á, þá eru niðurstöðurnar bara ótrúlega áhugaverðar. Við sjáum atvinnuleysi minnka um 21% og tæplega 40% aukningu á innritun til náms. Það er stórkostlegur árangur. 7% notuðu borgaralaunin til að stofna eða stækka lítil fyrirtæki. Meðalskuldir lækkuðu um 4%, meðalsparnaður jókst um 38%, fjárhagslegt öryggi jókst um 6,4%, bæði líkamleg og andleg heilsa fólks batnaði til muna og minni notkun var á opinberum bótakerfum. En eins og mér finnst borgaralaun vera áhugaverð og skemmtileg hugmynd sem ég myndi vilja sjá okkur skoða af alvöru og get talað endalaust um — líka sem viðbragð við tækniframförum og aukinni neyð viðkvæmra hópa í samfélaginu — þá eru líka önnur mikilvæg skref sem við getum tekið, t.d. með því að hlúa vel að konum á meðan þær ganga með börnin sín, því að við vitum að streita, áhyggjur og vanlíðan móðurinnar hafa neikvæð áhrif á þroska barnsins. Þroski barnsins helst í hendur við tilfinningalíf móðurinnar. Besta leiðin til að tryggja vellíðan barnanna okkar er að tryggja vellíðan foreldranna og um leið fjölskyldunnar. Þetta vitum við. Lenging fæðingarorlofsins, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á í sinni ræðu, skiptir rosalega miklu máli vegna þess að öll gögn sýna fram á mikilvægi þess fyrir þroska barnsins að verja tíma með foreldrum sínum fyrstu árin. Foreldrar veita barninu öryggi og óhófleg streita barna getur aukið líkurnar á ýmiss konar heilsufarsvandamálum, stuðlað að lélegri námsárangri og haft neikvæð áhrif á þroska barnsins.

Annað sem við getum gert er að færa okkur frá námslánum í átt að námsstyrkjum. Þetta myndi skipta sköpum fyrir ungt fólk og raunveruleg tækifæri þess til menntunar. Lægri skuldabyrði ungs fólks veitir því svigrúm til að huga að fjölskyldulífinu og frelsi til að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði út frá eigin hugðarefnum og eldmóði frekar en að þurfa að elta hæsta launaseðilinn.

Við þurfum að halda áfram með styttingu vinnuvikunnar vegna þess að kulnun er að aukast á ógnvænlegum hraða og fólk hefur allt of lítinn tíma í það sem raunverulega skiptir máli, að rækta fjölskyldutengsl, vinatengsl og áhugamál. Stytting vinnuvikunnar hefur jákvæð áhrif á ánægju fólks, heilsu og framleiðni. Að stytta vinnuviku foreldra er að stytta vinnuviku barnanna líka og gefa þeim verðmætan tíma með foreldrum sínum sem gæti komið í veg fyrir vanlíðan barnanna seinna meir.

Síðan þurfum við að tryggja efnahagsleg og félagsleg réttindi samlanda okkar allra og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Þetta eru grunnþarfir og ótrúlegt að við séum ekki komin á þann stað sem samfélag að vera búin að tryggja þetta. Fátækt felur í sér gríðarlega frelsisskerðingu fyrir þá sem lifa í henni og hefur gríðarlegan samfélagslegan kostnað í för með sér sem mun bara aukast ef hún fær að grassera áfram. Við þurfum að endurskoða almannatryggingakerfið okkar með það að markmiði að fjarlægja allar þær fátæktargildrur sem leynast þar. Borgaralaun eru ein leið til að gera það enda eru borgaralaun í grunninn bara grunnframfærsla án skerðinga og án skilyrða.

Forseti. Fátækt er afleiðing mannlegra kerfa. Hún er ákvörðun sem við höfum tekið saman sem samfélag, sem þing og sem ríkisstjórn. Hún er ekki náttúrulögmál. Við getum alveg breytt kerfunum okkar. Sú frelsisskerðing sem felst í fátækt fyrir þá sem lifa í henni hefur gríðarlegan samfélagslegan kostnað í för með sér sem mun bara aukast ef við höldum þessu áfram. Það er mikilvægt að þessi skýrsla sýni það svart á hvítu.

Grundvöllurinn að lýðræðislegu samfélagi er að almenningur sé þátttakandi í samfélaginu. Tækifæri og frelsi til þátttöku verða ekki raunveruleg fyrr en grunnþörfum fólks er mætt og þær tryggðar. Á meðan fjöldi fólks þarf daglega að hafa áhyggjur af því að fæða, klæða og hýsa sig og sína nánustu hefur fólk mjög takmarkaðan tíma og frelsi til að taka þátt í samfélaginu, og það er ekki gott í lýðræðisríki. Ég legg til að við sættum okkur ekki við þá hugmynd að það sé eðlilegur og óhjákvæmilegur þáttur lífsins að sumum vegni vel og öðrum ekki og þannig sé það bara. Fátækt er ekki náttúrulögmál og þetta þarf ekki að vera svona. Það að uppræta fátækt kallar á fjárfestingu og fjármuni. Við þurfum að forgangsraða í það verkefni, við þurfum að fara í átak og við höfum sýnt að við getum gert það. Ef við ákveðum sameiginlega að þetta verði í forgangi og skipti máli þá getum við fundið leiðir til þess að gera þetta. Það er fjárfesting að uppræta fátækt, fjárfesting í fólki, og þessi skýrsla sýnir mjög skýrt að hún borgar sig margfalt til baka. Við eigum að vera óhrædd við að fara í aðgerðir núna því að ef við bíðum of lengi og gerum ekki eitthvað strax versnar þetta bara, það verður erfiðara og erfiðara að díla við þetta og við munum sjá samfélag okkar breytast á hátt sem ekkert okkar vill sjá.

Ég er alveg sannfærð um að flestallir hér inni eru sammála því að við viljum ekki að þetta haldi áfram og vandinn dýpki. Mögulega er svarið við því af hverju ekki er verið að gera hluti það að fólk er ósammála um hvernig eigi að gera þetta. En kannski er þetta líka einhvern veginn skortur á þekkingu, eða ekki beint þekkingu heldur skortur á hugmyndum eða skilningi á því hvað við getum gert. Kannski er þetta það stórt vandamál að fólk nær ekki utan um þetta, ég veit það ekki, of mikill kostnaður eða eitthvað. En við verðum að geta unnið saman til þess að koma í veg fyrir þetta. Ég skil ekki hvernig við getum horft á þessa þróun og ekki raunverulega áttað okkur á því að við þurfum að fara í stórtækar aðgerðir og kannski bara mjög stórar kerfisbreytingar líka.