154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:57]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við munnlega skýrslu forsætisráðherra um fátækt og samfélagslegan kostnað. Umræðan byggist á skýrslunni Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður sem dreift var á Alþingi í byrjun júní. Tilefni skýrslunnar var beiðni hv. þm. Halldóru Mogensen og fleiri til forsætisráðherra sem samþykkt var hér á þingi síðasta haust.

Ég vil þakka hv. þingmanni frumkvæðið og hæstv. forsætisráðherra fyrir að hefja umræðuna hér í dag. Upplýsingarnar sem hér eru dregnar saman eru mikilvæg greining á stöðunni og í framhaldinu verðum við að halda áfram með ýmis verkefni sem draga úr fátækt og auka jöfnuð og vinna að frekari úrbótum. Þegar árangur næst hefur það jákvæð áhrif á samfélagið í heild.

Margir mikilvægir punktar úr skýrslunni hafa nú þegar komið fram í umræðunni, eins og að fátækt er staðreynd á Íslandi þó að staðan sé góð miðað við samanburðarlönd. Dregið hefur úr fátækt á Íslandi síðustu 20 ár og staða aldraðra er betri en fyrir 20 árum. Börnum sem búa við fátækt fækkar líka hlutfallslega. Hins vegar eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur þeir hópar sem standa nú sem fyrr verst þegar kemur að fátæktarmælingu og eru líklegastir til þess að vera útsettir fyrir fátækt. Vinna þarf sérhæfðari greiningu á hverjum hópi fyrir sig til að lyfta þessum hópum upp fyrir lágtekjumörk. Þá er bent á ýmsa þætti sem valda óvissu um niðurstöðurnar. Ég fagna sérstaklega orðum hæstv. forsætisráðherra um áframhaldandi greiningu og vinnu.

Virðulegi forseti. Ég ætla einkum að nálgast þessa umræðu hér í dag út frá stöðu barna, eins og raunar fleiri hafa komið inn á, m.a. hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir. Í skýrslunni kemur fram að tilfærslukerfi nái einna best til barnafjölskyldna og séu þannig tæki sem geti nýst til að bæta hag þeirra. Til að bæta hag eldra fólks væri betra að fara í gegnum almannatryggingakerfið, eins og raunar hefur verið gert, sérstaklega gagnvart tekjulægsta hópnum. Það á væntanlega þátt í betri stöðu eldra fólks, ásamt auðvitað auknum tekjum úr lífeyriskerfinu.

Bent er á að hvorug þessara leiða nýtist innflytjendum. Ég vil þó draga fram að millifærslukerfin nýtast einmitt innflytjendum með börn. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að í vinnu með innflytjendum eigum við að setja miklu meiri fókus á innflytjendur með börn og auk þess að horfa á ungmenni af fyrstu og annarri kynslóð. Í skýrslunni er einmitt dregið fram að við stefnumótun til að útrýma fátækt er mikilvægt að taka tillit til veltu innflytjenda. Innflytjendur sem stoppa stutt eru líklegri til að mælast undir lágtekjumörkum og geta haft áhrif á heildarniðurstöðuna. Varðandi þann hóp þarf fyrst og fremst að tryggja að reglur vinnumarkaðarins haldi.

Að öðru leyti tel ég að við ættum að einbeita okkur að fjölskyldum innflytjenda með börn. Það fólk er oftast komið til að vera og við þurfum að tryggja börnunum jöfn tækifæri á við aðra í íslensku samfélagi. Eins og fram kemur í skýrslunni getur fátækt í æsku haft langvarandi áhrif á lífið á fullorðinsárum og auðvitað er þetta líka sá hópur sem hefur minnsta stuðningsnetið og minnsta baklandið. Það skiptir miklu máli fyrir einstaklingana að hafa bakland. Flestir innflytjendur hafa minna bakland hér á landi en þau sem hafa átt hér rætur í margar kynslóðir. Það þarf að skapa fjölskyldum tækifæri til að læra íslensku, til að læra á íslenskt samfélag og mynda tengsl. Munum að foreldrar með börn komast ekki á íslenskunámskeið eftir 8–12 tíma vinnudag. Við verðum þess vegna að nálgast þann hóp með öðrum hætti en farandverkahópinn.

Alla vinnu gegn fátækt barna verður að tengja við aðra þjónustu sem samfélagið veitir börnum og foreldrum. Ég bind miklar vonir við þá vinnu sem nú stendur yfir við umbætur í málefnum barna með innleiðingu farsældarlaganna undir forystu mennta- og barnamálaráðherra og alla þá vinnu sem henni tengist. Þar er áhersla á að tryggja jafnt aðgengi að allri þjónustu sem veitt er á vegum ríkis og sveitarfélaga til að tryggja farsæld og að fjölskyldum sé veitt heildstæð þjónusta. Menntakerfið og heilbrigðiskerfið, sem snerta öll börn, eiga að vinna vel saman ásamt félagsþjónustu, löggæslu, þjónustu við fatlaða og fleiri. Í þeirri vinnu er líka lögð áhersla á að öll börn og foreldrar eigi aðgang að tengilið sem getur aðstoðað þau við að fá viðeigandi þjónustu án hindrana. Það getur einmitt verið lykillinn að jöfnuði og jöfnu aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

Það er líka margt annað að gerast í menntakerfinu. Nú er í gangi sérstakt áhersluverkefni varðandi umbætur í málefnum barna af erlendum uppruna, en starfshópur í mennta- og barnamálaráðuneyti leiðir þá vinnu. Sú vinna tengist aftur innleiðingu á farsældinni og breytingu á skólaþjónustu sem er fram undan til að styðja m.a. það að hópum í viðkvæmri stöðu verði mætt betur. Menntakerfið hefur verið og á að vera sá staður þar sem tækifæri barna eru jöfnuð, óháð efnahag og bakgrunni. Sú sýn hefur alla tíð verið hjartað í menntastefnu Framsóknar.

Mig langar líka að koma inn á nýtt samstarfs- og tilraunaverkefni heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra varðandi aukna samþættingu endurhæfingarþjónustu milli ráðuneyta. Þetta er verkefni sem á að mæta ungmennum sem finna sig ekki í skólakerfinu eftir grunnskóla og komast ekki inn á vinnumarkaðinn. Þetta er hópurinn sem hefur verið nefndur hér í dag og er kallaður NEET-hópurinn. Það er ungt fólk sem ekki er í vinnu, virkni eða námi og þarf sérhæfða og einstaklingsmiðaða þjónustu til að efla virkni og starfsgetu. Þetta er fólk sem fellur klárlega undir tekjumörk ef það festist á þessum stað, og er það örugglega hluti af skýringunni á þeim hópi ungmenna sem hefur litlar tekjur.

En munum það samt að mikill meiri hluti ungs fólks er í skóla eða vinnu hluta úr ári og sinnir auk þess fjölbreyttu tómstundastarfi. Þó er ákveðinn hópur sem einhverra hluta vegna hefur lítil tækifæri til virkni. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður líkt og áföll, langtíma- eða skammtímaveikindi, taugaraskanir, flutningar milli samfélaga, fátækt eða eitthvað allt annað. Þessi hópur hefur yfirleitt verið lítill hér á landi, og er lítill hér á landi, í samanburði við önnur lönd en skiptir samt mjög miklu máli. Við verðum að sinna þessum hópi vel.

Það er þess vegna mikið fagnaðarefni að á dögunum var undirritaður samningur sem tryggir þjónustu fyrir 80 einstaklinga sem falla undir þennan hóp. Það er þríhliða samningur um samvinnu milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK og Janusar – endurhæfingar. Þetta er þjónusta fyrir fólk á aldrinum 18–30 ára með flókinn og fjölþættan vanda og er tilraunaverkefni til tveggja ára. Árlegt fjármagn til þjónustunnar er um 330 millj. kr. Janus – endurhæfing veitir þjónustuna alla virka daga. Verkefnið er í samræmi við aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum um að efla gagnreynd starfsendurhæfingarúrræði. Endurhæfingarráð hefur leitt undirbúning. Þátttakendur eru m.a. geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðferðareining lyndisraskana á Landspítala og VIRK. Þá er verkefnið auðvitað mikilvægt í tengslum við breytingu á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu, en við höfum nýlega samþykkt breytingar hér á þingi og fleiri breytingar hafa verið boðaðar. Það gengur út á að styðja ungt fólk til atvinnu með sérhæfðum stuðningi. Í mennta- og barnamálaráðuneyti er líka verið að skoða þarfir annarra í þessum hópi, sem kallaður er NEET-hópurinn. Það er ekki ólíklegt að út úr þeirri vinnu komi fleiri sérsniðin verkefni, og er mjög mikilvægt að það geri það, þannig að ungmenni festist ekki í fátæktargildru.

Hér hefur líka verið rætt um tómstundir og mikilvægi tómstundaiðkunar. Mig langaði því að draga fram og benda á að á vef mennta- og barnamálaráðuneytis er nú auglýst eftir umsóknum um styrki frá íslenskum félagasamtökum til verkefna sem varða farsæld og samfélagslega virkni. Það getur verið menntun, frístundir, íþróttir og vernd og réttindi barna. Verkefnin snúa að forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum og þjónustu sem miðast sérstaklega að börnum í viðkvæmri stöðu. Þetta er verkefni sem hefur verið að þróast síðustu ár og ég tel afskaplega mikilvægt til að mæta hópunum sem einhverra hluta vegna eru í viðkvæmri stöðu. Við þurfum ekki bara að koma gagnlegum og áhugaverðum verkefnum á fót. Við þurfum að tryggja að þau nái til þeirra barna sem þurfa á þeim að halda. Til þess eiga þessir styrkir að nýtast. Auðvitað þarf fjölþætta vinnu til að draga úr fátækt en mín bjargfasta skoðun er að markviss vinna með börnum og ungmennum með það að markmiði að auka jöfnuð geti beinlínis dregið úr fátækt til lengri tíma, og auk þess dregið úr áhrifum fátæktar á börn og ungmenni í samtímanum. Þess vegna hef ég hér fókus á börn og fjölskyldur þótt auðvitað hefði verið hægt að koma inn á margt fleira sem er verið að gera og hefur verið unnið upp á síðkastið. Þar má nefna alla vinnu innviðaráðherra í húsnæðismálum, bætt regluverk utan um leigumarkað, hlutdeildarlán og fleira, eða vinnu heilbrigðisráðherra, bæði þess sem nú situr og þess sem sat á undan, við að draga úr þátttöku einstaklinga í heilbrigðiskostnaði með lægri komugjöldum, með langtímasamningum við sérgreinalækna og hækkun á styrkjum til tannréttinga barna. Þarna eru fleiri umbætur í pípunum.

Hér hefur auðvitað verið komið inn á ýmis önnur mikilvæg mál eins og fæðingarorlof, aðgengi að leikskóla og skólamáltíðir. Þá langar mig sérstaklega að draga fram að ég er stolt af mínu sveitarfélagi, Fjarðabyggð. Þar eru skólamáltíðir fríar. Það skiptir miklu máli. Ég veit sem fyrrverandi skólastjóri að það er meira en að segja það, hvort sem er fyrir starfsmenn skóla að ætla að velja úr börnin sem þyrftu sérstaklega að fá fríar skólamáltíðir, eða fyrir foreldra sem þyrftu á slíkum stuðningi að halda að stíga skrefið og sækja um það. Þess vegna er þetta eitt af ódýrari jöfnunartækjunum sem við gætum notað, fríar skólamáltíðir.

Þá læt ég þessari umfjöllun lokið að sinni þó að vissulega væri lengi hægt að halda áfram að ræða þessi mál.