154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:41]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta. Fyrst aðeins um þetta sem við vorum að tala um áðan. Ég er þeirrar skoðunar að hagsmunum okkar sé betur borgið almennt hvað varðar lífskjör með því að ganga inn í Evrópusambandið af því að við fáum meiri stöðugleika. Því fylgja hins vegar bæði réttindi og skyldur. Við erum örugglega að auka kostnað í samfélaginu á ákveðnum sviðum með því en minnka hann á öðrum þannig að þetta er bara eitthvert hagsmunamat sem við þurfum að eiga og vitum í sjálfu sér ekkert nákvæmlega hvar það liggur fyrr en að aðildarviðræðum lýkur. Ég er reyndar þeirrar skoðanir að þjóðin sjálf eigi að fá að ákveða það hvort við hefjum það ferli eða ekki. Mér finnst að flokkarnir á þingi eigi ekki að vera með neitunarvald um að þjóðin geri það. Ég vil árétta það líka að auðvitað eru lífskjör innan Evrópusambandsins mismunandi á milli landa og við höfum áfram sjálfdæmi um það hvernig við skiptum kökunni hér og byggjum upp samfélagið út frá þeim verðmætum sem hér verða til.

Varðandi það sem Flokkur fólksins hefur verið að leggja til hvað varðar eldri borgara, öryrkja og fátækt þá ætla ég fyrst að fá að hrósa Flokki fólksins fyrir það hversu einbeittur hann er í málflutningi fyrir sinn hóp. Það gerir flokkurinn vel. Ég er hins vegar ekkert alltaf sammála efnislega því sem Flokkur fólksins er að leggja til og mér finnst stundum farið svolítið bratt í ýmsar tillögur, t.d. um að hætta öllum skerðingum því að einhvers staðar verða skerðingarmörk að liggja. En ég er alveg hjartanlega sammála því að undan því kerfi sem heldur öryrkjum og fátæku eldra fólki föstu með skerðingum, í fátæktargildru, verðum við að komast. Ég skal leggjast á árarnar með Flokki fólksins þegar um skynsamlegar tillögur er að ræða en áskil mér rétt til að vera gegn þeim þegar mér finnst þær ekki taka tillit til ríkisfjármálanna í heilu lagi.