154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil, eins og aðrir hafa gert hér, þakka bæði fyrir skýrslubeiðnina og úrvinnslu hennar. Þetta er afar mikilvægt málefni í okkar samfélagi. Mér hefur ekki heyrst annað í dag en að við séum öll sammála um það að fátækt er eitthvað sem ekkert okkar vill að neinn þurfi að búa við. Við þurfum að leggja okkur fram um og gera það sem við getum til að uppræta hana. Það kemur fram í skýrslunni að þetta er ekki eitthvert séríslenskt fyrirbrigði heldur glímum við við þetta á mismunandi stigum úti um allan heim. Sem betur fer er Ísland svo vel sett að við erum þrátt fyrir allt með öflugt félagslegt velferðarkerfi. Það eru ekki allar þjóðir sem búa að því, svo sannarlega ekki. Við sjáum að stríðsrekstur í heiminum veldur vaxandi ójöfnuði, fátækt og almennum ömurlegheitum fyrir fólk sem býr á þeim svæðum. Því miður sjáum við fram á vaxandi fátækt mjög víða, bæði vegna loftslagsmála en ekki síður vegna stríðs. Það kemur fram í skýrslunni og var undirliggjandi að litið var til þessara þátta: fjárhagslegra þátta, félagslegra þátta, menntunarþátta, húsnæðisþátta og heilsufarsþátta. Þetta eru þau grunngildi sem við viljum að allir sem lifa í velferðarsamfélagi eigi að geta notið. Um það held ég að við séum öll sammála. Ég er engin undantekning.

Það sem maður hefur áhyggjur af eru þessir hópar sem hér eru undir. Nú eru innflytjendur fjórðungur vinnuaflsins. Þeir eru stór hluti þess hóps sem glímir við fátækt. Við þurfum að gera talsvert margt til að hjálpast að. Síðan erum við með eldra fólk, eins og hér hefur komið fram, og öryrkja. Þessir hópar komu hvað lakast út og við þurfum að fókusera á þá.

Einnig er talsvert mikilvægt að horfa á hóp ungs fólks frá 18–34 ára og gæta þess að fátækt aukist ekki hjá þeim. Við verðum að fara dýpra ofan í hvað það er sem veldur. Eitt af því sem maður sér fyrir sér er að við þurfum að gæta að því að skólagjöld hækki ekki og að námslán séu með þeim hætti að öll geti sótt sér menntun en þurfi ekki að hætta við að sækja sér menntun sökum þess að kerfið hjálpar ekki til, því að við þekkjum það að fátækt erfist.

Eins og hér hefur verið rætt er ýmislegt sem fylgir því þegar margar kynslóðir, jafnvel tvær, þrjár eða fjórar kynslóðir, hafa alist upp við fátækt og ná ekki að koma sér út úr henni. Það er algerlega óásættanlegt. Fólki sem lendir í því er hættara við svo mörgu sem við sem höfum það betra þurfum ekki að glíma við, hvort sem það varðar heilsu, afbrot eða hvað annað sem þar er undir. Það er eitthvað sem við verðum að reyna að ná utan um. Þess vegna þurfum við að halda áfram á þeirri braut að efla félagslegan stuðning og jafnt aðgengi að menntun. Við höfum séð áhrif þess í greiðsluþátttöku í heilbrigðismálum þar sem heilsan endurspeglast í tekjutíundum. Ég man þegar endurgreiðsla fyrir tannlækningar barna var innleidd í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það skipti gríðarlega miklu máli. Við sáum að þá mættu foreldrar með börn sín til tannlæknis sem áður höfðu ekki leyft sér það. Þetta kerfi, og raunar allt okkar kerfi, þurfum við að halda áfram að byggja upp.

Það kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að þegar þessi skýrsla var rituð hefðu ekki verið komnar fram breytingar sem gerðar hefðu verið á barnabótakerfinu, húsnæðiskerfinu, skattþrepum og öðrum aðgerðum sem gripið hefur verið til. Það verður verkefni að fylgjast með því. Ég ætla að lýsa ánægju minni með það og mun sem formaður velferðarnefndar þiggja það boð sem ráðherrann kom á framfæri hér í dag. Næstu tvö ár að minnsta kosti — og ég fagna því — verður þessum rannsóknum og eftirfylgni með þessari skýrslu haldið áfram. Stöðumat fer reglulega fram, sem verður hægt að yfirfara. Við getum átt samtal í velferðarnefnd og við ráðuneytið um þær niðurstöður sem verða til á hverjum tíma og um þær aðgerðir sem lagt er til að ráðist verði í hverju sinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég tek undir með þeim sem hafa talað hér í dag. Við getum rætt fram og til baka um það hvernig hitt eða þetta kerfi eigi að vera. Ég held að við séum flest sammála um að við viljum að það komi þeim best sem minnst hafa, að stuðningur eigi fyrst og fremst að liggja hjá fátæku fólki og ungu fólki með börn sem er að koma sér upp húsnæði, og við þurfum að brúa bilið milli leikskóla og fæðingarorlofs. Hið opinbera þarf að sjá til þess með einhverjum hætti að skólar séu almennt með fríar skólamáltíðir þannig að fátæk börn sem geta ekki keypt sér mat fái að borða.

Við þurfum að halda áfram að tryggja uppbyggingu húsnæðis. Við þekkjum öll þá sögu hvernig það hefur ekki gengið allt eins og við vildum. Það eru kannski fleiri leiðir í því af því að þau sem eru á leigumarkaði standa oft höllum fæti þegar kemur að því að skilgreina fátækt. Það er hægt að takast á við það, t.d. í gegnum útleigu á Airbnb-íbúðum. Það væri hægt að miða þetta við fasteignanúmer svo að ekki væri hægt að rúnta með þetta milli allra fjölskyldumeðlima og leigja endalaust og koma sér fram hjá lögunum. Þá myndu væntanlega íbúðir koma á markað sem annars væru þar ekki. Það er alveg ljóst að öryggið sem er að finna í húsnæði er eitt af því sem skiptir miklu máli vegna afleiðinga þess að búa við fátækt. Það er gríðarlega mikilvægt.

Vikið var að því áðan að fátækt væri meiri í dreifbýli en þéttbýli. Það er gríðarlegt áhyggjuefni. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að horfa til. Við funduðum í atvinnuveganefnd í morgun með Bændasamtökum Íslands. Þar var farið yfir stöðuna hjá bændum, sem er gríðarlega þung. Þar eru margir sauðfjárbændur í fátæktargildru og ljóst að illa fer ef ekki verður stutt við þá. Við vitum alveg að ef hækka þyrfti verð þar um allt að 50%, til að kjörin væru í algjöru lágmarki, þá færi það út í matarverðið. Það er ekki það sem við þurfum á að halda. Við þurfum einhvern veginn að bregðast við þar. Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi patentlausn á þessu, en hér þarf samt að finna út úr því hvernig við getum hjálpað til. Stærsta málið, ekki bara fyrir fólk sem býr við fátækt en ekki síst fyrir það, er að takast á við vexti og verðbólgu sem við höfum talað um í langan tíma. Ýmislegt hefur verið gert og við þurfum að halda áfram í þeim verkefnum. Það mun létta á, hvort sem það er matur, matvara, leiguverð eða annað sem ýtir öllu upp hér.

Fjallað var um skýrslu Barnaheilla í dag. Mig langar að taka undir það sem kemur fram í skýrslu þeirra. Þar er talað um að stjórnvöld þurfi að setja sér stefnu og aðgerðaáætlun til að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi. Ég held að það sé eitt af því sem er nauðsynlegt. Það er alltaf gott að hafa eitthvert leiðarljós fyrir framan sig þannig að farið sé í markvissar aðgerðir en við séum ekki í endalausum viðbrögðum. Það hefur líka komið fram hér í dag, og kemur fram í skýrslunni, þetta með að hjálpa barnafjölskyldum í tekjulágum tíundum við að draga úr kostnaði við þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi, ferðalögum og slíku þannig að öll hafi tækifæri til að taka þátt. Það þekkir maður, því miður, ekki síst komandi utan af landi þar sem börn þurfa að fara um langan veg til að geta tekið þátt í íþróttum eða öðru tómstundastarfi. Iðulega er það þannig að hætt er við vegna þess að kostnaður er svo mikill.

Síðan er greiðsluþátttaka í heilbrigðisþjónustu. Við höfum aukið talsvert við varðandi það, eins og við þekkjum. Það eru geðheilbrigðisteymin. Þá hefur verið aukið við sálgæslu, sérstaklega fyrir þennan hóp. Ekki síst, eins og ég tel að hv. þingmenn muni, var rætt um það eftir Covid-19 varðandi skólana að mikil þörf væri á því að hjálpa nemendum í framhaldsskólum sem áttu allt annars konar framhaldsskólagöngu en við önnur sem höfðum tækifæri til að ganga í gegnum hefðbundið skólastarf.

Þetta er fólkið sem er að koma út núna, ætlar að sækja sér viðbótarmenntun og á í vanda. Það er ekki ásættanlegt að við séum með svo stóran hóp ungs fólks sem glímir við kvíða. Ég hlustaði á viðtal við Þorgrím Þráinsson í morgun þar sem hann fór yfir þessi mál. Við sem foreldrar ættum að gæta þess að tapa ekki þeirri baráttu sem við stöndum nú frammi fyrir, bæði í skólum og annars staðar, með auknu ofbeldi og þessum gríðarlega kvíða sem brýst út á svo margvíslegan hátt. Ég tel að það sé þrátt fyrir að við séum að gera mjög margt.

Ég vil ítreka eitt — eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á áðan og er vert að minnast á, vegna þess að við erum alltaf að reyna að finna leiðir til að bregðast við ástandi — og það er þetta verkefni hjá Janusi – endurhæfingu, sem við höfum aðallega kynnst í gegnum eldra fólk. Það var undirritaður núna þríhliða samningur milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs og Janusar – endurhæfingar. Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra undirrituðu þennan samning um þetta verkefni. Það skiptir máli þegar þú ert ungur aðili og hefur þig ekki út á vinnumarkaðinn sökum kvíða eða annarra vandkvæða að fá góða þjónustu þar sem þér er hjálpað af stað út í lífið.

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé margt sem við höfum gert, eins og ég sagði áðan. Nú er unnið hörðum höndum að því að koma fram með frumvarp sem á að bæta örorkulífeyriskerfið, þar sem skerðingum og þeim flokkum verður fækkað. Því verður talsvert breytt, er mér sagt. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að fólk sem sökum skerðinga situr í fátækt — það er eitthvað sem er ekki hægt að una við og við þurfum að vinna á. Við höfum, eins og ég sagði, hækkað barnabætur þannig að þær nái til fleiri. Við höfum eflt almenna íbúðakerfið og hækkað húsnæðisstuðning við um fjórðung leigjenda. Þar eru aðrar aðgerðir, ekki endilega bara beinir peningar eins og ég lýsti áðan, sem hægt væri að fara í til að hjálpa til á þeim markaði.

Ég held að við höfum gert margt gott fram til þessa, enda erum við velferðarsamfélag. En við eigum auðvitað að geta gert miklu betur. Við eigum fyrst og fremst að fókusera á það að ef við náum niður vöxtum og verðbólgu hjálpum við öllu samfélaginu okkar, ekki síst yngra fólki sem er að koma inn á leigumarkað eða húsnæðismarkað, en líka öllum þeim sem þurfa að kaupa mat í körfuna sína.