154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttir fyrir hennar ræðu og byrja þar sem hún kom inn á í upphafi ræðunnar. Þar talaði hún um innflytjendur. Ég hef rætt þetta svolítið í dag og ef ég man rétt þá var það að frumkvæði Vinstri grænna, held ég, sem búsetulögin voru sett. Þau voru mikil framfaralög að mörgu leyti vegna þess að þarna var verið að hífa upp ákveðinn hóp sem var í fátækt. En ég verð alveg að viðurkenna að ég var ósáttur og er ósáttur enn þá við það óréttlæti sem var látið fylgja með, að hafa 10% minna og krónu á móti krónu-skerðingu ofan á þennan hóp vegna þess að það er auðvitað alveg galið. Ég er búinn að leggja fram frumvarp um að reyna að fá þessu breytt en það virðist ekki vera hægt. Ég bara skil það ekki. Ég spyr hv. þingmann hvað henni finnst um þetta, hvort henni finnist ekki vera skrýtið, fyrst við vorum að þessu á annað borð, að ganga ekki alla leið. Af hverju þarf þessi hópur, þetta er ekki stór hópur og kostar ekki mikið, að vera þarna með bæði 10% lægra og krónu á móti krónu-skerðingu á sér?

Síðan kom hv. þingmaður inn á fátækt og kvíða ungs fólks. Fátækt veldur kvíða og andlegum veikindum, það fer ekki á milli mála. Það hefur meira að segja líka áhrif á börn. Síðan kom hún líka inn á lyf og lækningar. Er hv. þingmaður ekki sammála því að það þurfi að taka út þennan þröskuld? Vegna þess að þegar nýtt greiðslutímabil hefst fyrir lyf t.d. þá lenda margir á vegg og hafa ekki efni á því. Það er auðvitað grafalvarlegt mál vegna þess að ef þeir ná ekki í lyfin sín og ef þeir komast ekki til læknis þá enda þeir í dýrasta úrræðinu, þ.e. inni á sjúkrahúsi.