154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:11]
Horfa

Elva Dögg Sigurðardóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu sem hefur átt sér stað. Í skýrslunni sem hér um ræðir kemur margt fram, margt mikilvægt. Það stendur m.a. að dregið hafi úr tekjufátækt síðustu tvo áratugi. Þó má ekki líta fram hjá því að þessar tölur ná einungis til ársins 2021. Það er ýmislegt sem hefur gerst og breyst síðan þá sem hefur haft neikvæð áhrif á hagsæld fólks, svo sem húsnæðisskortur, himinhá verðbólga og hátt vaxtastig. Þetta þýðir einfaldlega að það er dýrara að lifa á Íslandi í dag en fyrir tveimur árum síðan. Fjöldi fólks hefur líka flutt til landsins. Húsnæðisverð hefur hækkað mikið síðustu ár, hvort sem litið er til þeirra sem kaupa fasteign eða til leiguverðs. Allt helst þetta í hendur. Það kemur þingheimi eflaust ekkert á óvart að við í Viðreisn viljum benda á augljósan punkt í þessu efni, krónuna.

Eins og ég kom inn á áðan ná tölur skýrslunnar aðeins til 2021. En hvað var að gerast þá? Jú, þá var ríkisstjórnin og Seðlabankinn að tala um að hér væri gengið í garð framtíðarlágvaxtaskeið. Fólk var á leigumarkaði þar sem leigan var eflaust lægri en í dag. Fólk tók fasteignalán og afborganirnar voru miklu lægri en þær eru í dag. Staða þessa fólks hefur stökkbreyst. Þótt við vitum ekki nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur haft á þann hóp sem við ræðum hér í dag þá er eitt sem við vitum samt: Hann hefur að öllum líkindum fari einna verst út úr þessu.

Segjum samt að húsaleiga viðkomandi hafi ekki hækkað umfram launahækkanir en þá er ein breyta sem við vitum öll að hefur hækkað. Það er matarkarfan. Ekkert heimili tekur rekur sig án þess að kaupa í matinn. Nýlegar fréttir af því að fólk sé að taka yfirdrátt til að eiga fyrir mat út mánuðinn eru átakanlegar. Fólk er að reyna að bjarga sér og eiga mat fyrir sig og fjölskyldu sína en eina leiðin er að taka yfirdrátt á 17% vöxtum. Á sama tíma hefur t.d. matarkarfan hækkað um 12% í Bónus á einu ári samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ. Við hljótum öll að sjá að þetta slær hópinn sem hefur minnst á milli handanna langverst.

Oft er rætt í þessum sal að ekki sé nú tímabært að ræða gjaldmiðilinn, það að taka upp annan gjaldmiðil sé ekki töfralausn. Það er rétt, en það er heldur ekki lausn að fara alltaf í sömu hringekjuna, hringekju vaxta og verðbólgu á áratuga fresti. Við verðum að horfast í augu við það að krónan er kannski ekki eini skaðvaldurinn en hún er ansi skaðsöm samt.

Virðulegi forseti. Ég kem af Suðurnesjum og langar mig því að fjalla sérstaklega um það svæði. Þar, eins og annars staðar, eru ýmsar áskoranir. Á þessum 20 árum sem skýrslan nær til hefur lágtekjuhlutfallið hækkað á Suðurnesjum. Alls staðar annars staðar hefur þetta hlutfall lækkað. Þá má ætla að þessi tala hafi hækkað enn frekar miðað við þann fjölda sem hefur flutt á svæðið á síðustu árum. Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Hátt lágtekjuhlutfall á Suðurnesjum kann að skýrast af því að lágtekjufólk flýi höfuðborgarsvæðið og fari þangað, sem er ekki of langt frá Reykjavík, í leit að húsnæði á viðráðanlegu verði.“

Það má ræða þetta sem einhvers konar flótta, gott og vel, en fólk er bara að leita að betra lífi. Það gera líka aðrir hópar, ekki bara þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar þá að ræða meira um fólk sem flytur hingað til landsins af fjölbreyttum og ólíkum ástæðum; fólk, fjölskyldur og einstaklingar sem við viljum taka vel á móti, styðja við og hjálpa. Árið 2022 voru innflytjendur á Íslandi 16,3%. Tíu árum áður voru þeir 8%. Í Reykjanesbæ var þetta hlutfall 28% árið 2022 af heildaríbúafjölda, tæpum 12 prósentustigum hærra en landshlutfallið. Þetta er hæsta hlutfall á landinu. Þarna höfum við auð af fólki með fjölbreyttar áskoranir, hæfileika og styrkleika. Mörg hver dreymir um að stofna eigið líf og fjölskyldu í öruggu skjóli og gefa af sér til samfélagsins og það hryggir mig svo að sjá hvernig við tökum á móti þessu fólki og hvað við bjóðum því upp á í mörgum tilfellum. Umræðan virðist því miður nefnilega oft snúast um að innflytjendur séu byrði á samfélaginu en í rauninni eru þau nauðsynlegur hluti af vélinni sem knýr samfélagið okkar áfram.

Skýrslan snertir lítillega á því að það gæti verið umtalsverður ávinningur af því að styðja betur við innflytjendur og þátttöku þeirra á vinnumarkaði. Hagsæld þjóðarinnar er eftir allt saman bara samanlögð hagsæld allra einstaklinga og fjölskyldna sem búa í landinu. Vinnumarkaðurinn getur verið hluti af vandamálinu eða lausnin. Eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu býr hér fjöldi fólks sem hefur menntað sig í heimalandi sínu en fær ekki vinnu hér á landi í samræmi við menntun sína, áhugasvið og hæfileika. Það myndi bæði draga úr fátækt og auka verðmætasköpun samfélagsins ef hærra hlutfall fólks sem kemur hingað til landsins fengi vinnu við hæfi. Eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á áðan þá er þessi hópur fólks, fólk sem flyst hingað til landsins, í hvað erfiðastri stöðu og það er okkar að aðstoða.

Ráðherra kom líka inn á að til stæði að hópur fræðimanna haldi áfram að kanna stöðu og valkosti ákveðinna hópa. Þar voru talin upp nokkur ráðuneyti sem munu taka þátt í þeirri vinnu en mig langaði að leggja til ráðuneyti nýsköpunar í viðbót við þau sem hafa verið nefnd. Það er nefnilega ótrúlega mikilvægt að nýsköpun sé höfð með í umræðunni og að leiðarljósi, að við búum til umhverfi svo að þær lausnir sem við vitum ekki einu sinni að eru til geti fengið að verða til. En í skýrslunni stendur einmitt, með leyfi forseta:

„Þá sé mikilvægt að umræða um fátækt og úrræði samfélagsins byggi á því að horft sé til styrkleika, gæða og réttar í stað vanmáttar, skorts og ölmusu.“

Við verðum að ræða valdeflingu fólks. Þá undirstrika ég sérstaklega mikilvægi samfélagslegrar nýsköpunar og hlutverk félagslegra fyrirtækja þar sem fólk er valdeflt og virt. Umræða um þetta tvennt þarf að aukast í samfélaginu, þ.e. samfélagslega nýsköpun og félagsleg fyrirtæki. Við verðum að horfa til langvarandi lausna þar sem kröftug samfélagsleg nýsköpun getur komið inn, þar sem fyrirtækjum og fólki með hugmyndir sem snúa að samfélagslegum ábata er gert hátt undir höfði og njóta stuðnings hins opinbera í því að bæta lífsgæði fólks. Ég vil því hvetja hæstv. forsætisráðherra til að taka nýsköpunarráðuneytið með í þessa áframhaldandi för.