154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég þakka bara fyrir að hæstv. forsætisráðherra muni eftir framtíðarnefndinni. Við höfum auðvitað rætt alla mögulega og ómögulega hluti og það er eitt af því sem er flókið við nýja nefnd sem á að takast á hendur skoðun á þessu fyrirbrigði að þetta er svo víðfeðmt. Þetta hefur auðvitað verið rætt en ekki hefur markvisst verið unnið að þessu og ég bara fagna því að ráðherra nefni þetta og sannarlega mun ég taka það upp í nefndinni og óska eftir því að við skoðum það. Eitt af því sem er svo brjálæðislega flókið, erfitt og hættulegt við þessa tækniþróun sem við erum að sigla inn í er að á meðan allt síðustu 1.000 ár, allar framfarir, öll geta mannkynsins, siðvit og annað, hefur verið að hækka í einhverjum svona línulegum vexti þá erum við allt í einu með eitthvert fyrirbrigði sem heitir tækni sem er að vaxa í veldisvexti og er í lóðréttum ás núna. Þannig að það liggur bara í hlutarins eðli held ég að hættan á að auðurinn, ef við bregðumst ekki við með annars konar hugsun í skattkerfinu og uppbyggingu samfélagsins, muni líka fara að safnast hraðar á hendur færri í nákvæmlega sama veldisvexti. En takk fyrir að minna á þetta.