154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að benda á að þessi skýrsla er mjög mikilvægur grunnur að því að við getum einmitt verið með þá vísa og tölfræði sem hv. þingmaður bendir á og ég ímynda mér að það gæti komið út úr þeirri vinnu sem ég hef sett af stað í þessum efnum.

Ég vil líka minna hv. þingmann á að velsældarvísarnir, sem eru tiltölulega nýlegt fyrirbæri, eru núna aðgengilegir á mælaborði hjá Hagstofu Íslands þar sem er stefnan að bæta við fleiri vísum þannig að hægt verði að setja inn vísa sem lúta sérstaklega að fátækt barna, sem ætti þá mögulega að geta gert Barnaheill það kleift að exa við það í þessu riti sem hv. þingmaður vitnar í. En svo er nú gallinn einmitt í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður hefur hér verið að vitna í að þar eru t.d. ólík viðmið um Danmörku miðað við hin Norðurlöndin sem gerir það að verkum að þau koma misjafnlega út í mati á fátækt. Það er auðvitað alltaf vandinn, eins og kemur ágætlega fram í þessari skýrslu, aðferðafræðin er misjöfn sem beitt er til að meta fátækt. En ég tek undir með hv. þingmanni að við eigum að hafa þessa tölfræði algerlega á hreinu. Við eigum að geta metið hvernig okkur miðar í baráttunni og það gerir okkur líka hægara um vik að samþykkja aðgerðir sem skila árangri.