154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

staða og úrvinnsla mála hjá stjórnvöldum.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrirspurnina sem má nú kannski frekar kalla einhvers konar stjórnmálaskýringu af hálfu hv. þingmanns þar sem hann fer yfir það hvað hann hefði viljað sjá koma út úr þessu og ég er ekki í nokkrum vafa um hvað hann hefði viljað sjá koma út úr þessu öllu saman. Væntanlega hefur hann vonast til þess að ríkisstjórnin spryngi og hefur hann ekkert farið leynt með þau sjónarmið sín. Þannig að mér þykir leitt að valda hv. þingmanni vonbrigðum með það að ríkisstjórnin nýtti má segja þessa ákvörðun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til að fara yfir stóru málin, fara yfir stöðuna, meta erindi okkar sem hefur verið mjög skýrt frá upphafi. Allt frá því að þessi ríkisstjórn tók við í lok árs 2017 hefur erindi okkar snúist um það að byggja upp innviði og bæta lífskjör almennings og að því höfum við unnið allan þann tíma sem höfum verið í embætti og þess vegna eftir fundi okkar með þingflokkum lá algjörlega fyrir að fólk var einlægt í því að vilja halda áfram að starfa saman að þessum stóru markmiðum. Þetta eru auðvitað langtum mikilvægustu markmiðin fyrir samfélagið allt.

Auðvitað eru fjöldamörg mál sem þarf að leysa úr. Það er yfirgripsmikill stjórnarsáttmáli og ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir búnir að ljúka töluverðum meiri hluta af þeim málum sem þar eru tilgreind eða þau eru vel á veg komin. Auðvitað eru ýmis mál sem mun áfram þurfa að leysa úr. Um það snýst það að vera í ríkisstjórn. En ég skil vel að fréttir helgarinnar hafi valdið hv. þingmanni ákveðnum vonbrigðum og ég verð bara að halda áfram að hryggja hann með því að ég held að þessi vilji sé einlægur og stjórnarflokkarnir eigi það sameiginlegt að vera reiðubúnir að leysa úr þeim málum sem upp kunna að koma, hvort sem það er tengt útlendingamálum, eins og hv. þingmaður nefnir hér, eða öðrum þeim málaflokkum sem kunna að vera umdeildir á vettvangi þingsins.