154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

barnabætur lágtekjufólks.

[15:24]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er 8% verðbólga. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur rýrnað fjóra ársfjórðunga í röð og vextir hafa ekki verið hærri síðan árið 2009, rétt eftir bankahrunið. Við ræddum hér í síðustu viku skýrslu hæstv. forsætisráðherra um fátækt á Íslandi og hér hefur verið vitnað til þeirrar skýrslu. Þar kemur fram að hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum hefur hækkað síðan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við árið 2017 og fátækt hefur dýpkað lítillega á sama tímabili. Ef við skoðum svo nýlegri gögn, skýrslu frá Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, sem kom út núna í maí, kemur þar fram að æ fleiri heimili eiga erfitt með að ná endum saman og 20% heimila geta ekki greitt fyrir tómstundaiðkun fyrir börnin sín. Það er við þessar kringumstæður, virðulegi forseti, sem lítur út fyrir að barnabætur þeirra heimila sem eru allra neðst í tekjustiganum rýrni að raunvirði núna milli ára. Alþýðusamband Íslands bendir á þetta. Ef fram fer sem horfir þá verða barnabætur tekjulægsta fólksins á Íslandi lægri í janúar 2024 heldur en þær voru í janúar 2022.

Er þetta, virðulegi forseti, það sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með þegar hér voru gerðar breytingar á barnabótakerfinu síðasta haust, að barnabætur lágtekjufólks myndu ekki bara standa í stað heldur beinlínis rýrna? Og ef ekki, ef þetta er ekki það sem lagt var upp með, getum við í Samfylkingunni, getum við jafnaðarmenn treyst því að við fáum stuðning frá hæstv. forsætisráðherra og hennar flokki við að grípa inn í og koma í veg fyrir þessa raunrýrnun?