154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á þetta fannst mér freistandi að koma og eiga orðastað við hana, ekki endilega af því að ég sé algerlega ósammála henni. Ég held að það sé margt í okkar regluverki sem er allt of þunglamalegt þegar kemur að þessum hlutum. Ég held að mörg embætti úti um allt land séu einfaldlega of lítil til að ráða við það. Kannski mætti skoða einhverja samlegð þar. Það er góð ástæða fyrir því að það er ekki eins og að skrúfa frá krana að reisa byggingar. Þetta eru steypuklumpar sem eiga að standa í 50–100 ár og hafa mikil áhrif á umhverfi okkar og byggð. Það er allt í lagi að það sé ákveðin tregða í kerfinu, alveg eins og þegar við ráðumst í stórfelldar framkvæmdir í virkjunum eða öðru. Síðan er á öðrum stöðum hjá okkur fullt af skrýtnum reglum sem eru eiginlega til óþurftar. Ég nefni tvö dæmi. Þó að Norðmenn séu hávaxnari en við er af einhverjum ástæðum gerð krafa um tíu sentímetra meiri salarhæð á Íslandi en í Noregi. Þetta er eitt. Í öðru lagi þurfa útidyr á Íslandi að vera — ég man ekki hvort það var fimm eða tíu sentímetrum hærri en í Noregi. Skiptir þetta einhverju máli? Já, þetta skiptir hellingsmáli. Ef við ætlum að nútímavæða okkur og fara að byggja meira á einingum og tilbúnum hlutum, t.d. frá Evrópu, þá þarf alltaf að sérsníða þetta miðað við íslenskar aðstæður, sem gerir hverja einingu 20–25% dýrari en þá norrænu. Við ættum að skoða byggingarreglugerð út frá því að samræma hana í meira mæli gagnvart nágrönnum okkar.