154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, gerum það endilega og sameinumst um það. Við getum örugglega náð sameiginlegum markmiðum sem eru til góðs. Við höfum hins vegar einblínt of mikið á tæknilega hlið bygginga og lítið á óefnisleg gæði. Það er góð ástæða fyrir því að okkar fremstu einstaklingar á sviði skipulagsmála fyrir mörgum áratugum voru ekkert arkitektar eða verkfræðingar heldur var það læknir, Guðmundur Hannesson. Þetta er lýðheilsumál. Maður sér það að nú er verið að draga fleiri hópa og fleiri fagstéttir inn í þessi mál, sálfræðinga, umhverfisfræðinga og aðra. Án þess að ég ætli að gera veg minnar starfsstéttar mikið minni, þá eigum við að vera í samtali við alla þessa hópa. Það eru þessi óefnislegu gæði sem ég hef áhyggjur af, eins og af birtu og öðrum slíkum hlutum. Við verðum fyrst og fremst að passa að gefa ekki afslátt af kröfum sem hefur tekið langan tíma að ná fram, eins og t.d. aðgengismálum fyrir fatlaða. Við verðum að beina sjónum okkar að því sem er til trafala. Íslenska fjölbýlishúsið hefur versnað undanfarin 70 ár ólíkt því norræna, að hluta til vegna þess að það er alltaf þessi umræða um háan byggingarkostnað. Hár byggingarkostnaður skiptir gríðarlega miklu máli, sérstaklega þegar þú ert með háa vexti, verið er að fjármagna sig á háum vöxtum og íbúarnir þurfa að borga háa vexti næstu 40 ár. Kannski væri það punkturinn sem við ættum að horfa á: Hvernig getum við búið til umhverfi þar sem framtíðarhorfur eru stöðugri og vextir lægri? Þá er ég alveg viss um að við færum að þróast aftur eins og Norðurlönd.