154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tæknifrjóvgun o.fl.

16. mál
[18:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir framsöguna og vil segja það að án þess að hafa kafað djúpt ofan í prósentutölurnar eða krónutölurnar í 1. gr. þá er ég henni efnislega sammála, þ.e. ég er sammála því að það væri til bóta ef ríkið tæki þátt í kostnaði vegna tæknifrjóvgana og styddi þannig við þá einstaklinga eða fjölskyldur sem þurfa einhverra hluta vegna að fara þá leið við sínar barneignir.

Ég hins vegar kveð mér hér hljóðs vegna þess að ég get ekki stutt 2. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um breytingar á lögum um ófrjósemisaðgerðir þar sem lagt er til að þær verði ekki lengur niðurgreiddar af Sjúkratryggingum Íslands. Ég skil hvað það er sem hv. þingmaður er að gera með því, þ.e. að með því að hætta þeim niðurgreiðslum yrðu til fjármunir sem væri hægt að nota í hitt. Ég tel hins vegar að um mikla afturför væri að ræða ef þetta væri gert vegna þess að það sem hér er kallað valfrjálsar aðgerðir er mjög oft framlag karla til þess að hafa áhrif á fjölskyldustærð. Karlar í sambúð létta því mjög oft af konum sínum að vera á hormónagetnaðarvörnum til langs tíma og taka þannig hluta af ábyrgðinni þegar kemur að fjölskylduskipulagningunni. Ég er því bara hreinlega ósammála því sem segir í greinargerðinni, að hér sé hvorki um brýna nauðsyn fyrir einstaklinginn né um hagsmuni almennings að ræða. Ég tel að hér sé hvort tveggja nefnilega nauðsynlegt fyrir einstaklinga. Það skiptir máli fyrir heilsu og kynheilsu kvenna að þær séu ekki eingöngu ábyrgar fyrir getnaðarvörnum og sér í lagi ekki í samböndum. Þannig að mér finnst þessi partur frumvarpsins ekki góður og vil raunar ganga svo langt að hér sé um ófemíníska tillögu að ræða.

Hafandi sagt hitt, að efnislega lítist mér vel á fyrri hlutann, þá þætti mér mikilvægt að það yrði skoðað að fara mögulega aðrar leiðir í fjármögnun á þessu frumvarpi og það er auðvitað hægt að gera það á ýmsan hátt. Ég skoðaði þetta mál og ég veit að fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs var meðflutningsmaður á þingsályktunartillögu frá hv. þingmanni á síðasta ári en þar var ekki þessi 2. gr. með. Það hefur breytt afstöðu okkar, eða alla vega mín og fleiri, til þessa máls. Ég vildi koma þessum sjónarmiðum hér á framfæri og vona að nefndin, svo og hv. þingmaður, taki alla vega mið af þessum röksemdafærslum sem ég hef fært hér fram.