154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tæknifrjóvgun o.fl.

16. mál
[18:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og mér finnst alltaf gott þegar við eigum í opnum skoðanaskiptum hér í þingsal. Hvað varðar spurningu hv. þingmanns þá verð ég að viðurkenna að svar mitt er nei. Mér finnst ekki skrýtið að hið opinbera taki þarna þátt að fullu. Hins vegar er það auðvitað þannig að í okkar mjög ágæta heilbrigðiskerfi, þar er ekki allt fullkomið og margt mætti alveg bæta. Ég hygg að til að mynda einhvers konar niðurgreiðsla á getnaðarvörnum gæti bara verið mjög af hinu góða. En þar myndi ég vilja horfa til þess að þá yrði aukið í stuðning hins opinbera en ekki farin sú leið að hreyfa við því kerfi eða þeim mikilvægu, vil ég segja, lögum sem þegar hefur verið komið á hvað varðar þessi mál.