154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tæknifrjóvgun o.fl.

16. mál
[18:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og ég sagði í ræðu minni þá styð ég og skil markmiðið með 1. gr. og er sammála hv. þingmanni um að þetta er mjög erfitt ástand eins og það er núna fyrir fólk sem þarf að fara í tæknifrjóvgunaraðgerðir, vegna þess að kostnaðurinn er svo gríðarlega hár. En við hv. þingmaður verðum held ég bara að vera ósammála um síðari greinina. Ég tel að með þeirri útfærslu sem lögð er til með 2. gr. sé verið að bæta stöðu fólks, sem vissulega þarf að bæta, en verið að gera það á kostnað fólks sem ég hygg að þurfi líka á þeirri aðgerð að halda sem þar er mælt fyrir í lögum. Það sé þá verkefnið að eigi að fjármagna frumvarpið verði að líta til þess að fara í tekjuöflun með einhverjum annars konar hætti. Það er auðvitað hægt að gera með mörgum öðrum aðferðum en þeirri að auka kostnaðarhlutdeild einhverra í heilbrigðiskerfinu, til að mynda með breytingu á einhverjum sköttum. Ég ætla ekkert að nefna aðra leið vegna þess að ég vil bara skilja það eftir sem mjög opið að það eru vitaskuld til fleiri leiðir til þess að fjármagna þær breytingar á samfélaginu okkar sem við teljum mikilvægt að fara í.

Þannig að við það stendur að ég er efnislega fylgjandi því að það verði skoðað að taka þátt í kostnaði við tæknifrjóvganir en er ósammála seinni greininni um að hætta niðurgreiðslum á ófrjósemisaðgerðum.