154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að tala um matarsóun sem ég held að við í þessu samfélagi séum flest sammála um að við viljum draga úr, enda er hún í rauninni galin, bæði í umhverfislegu tilliti og fjárhagslegu. Það er auðvitað fáránlegt að við séum að henda mat á öllum stigum, í framleiðslu, verslun og á heimilum, þegar við gætum verið að minnka umhverfisáhrifin með því hreinlega að framleiða minna eða markvissar og við gætum bætt fjárhag heimilisins með því að kaupa bara það sem við þurfum. Sjö af hverjum tíu Íslendingum vilja breyta hegðun sinni til að minnka umhverfisáhrifin sín þannig að við erum svo sannarlega með samfélagið með okkur í liði hérna. Saman gegn sóun er almenn stefna um úrgangsforvarnir sem gildir á árabilinu 2016–2027 og er í samræmi við hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins en frumvarp um það frá þáverandi umhverfisráðherra tók einmitt gildi 1. janúar síðastliðinn og nú erum við hér í Reykjavík farin að flokka lífrænt og það gengur, að því er mér skilst, vonum framar, fram yfir væntingar, þannig að það er jákvætt.

Ég beindi fyrirspurn til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um fjármögnun og framkvæmd aðgerðaáætlunar gegn matarsóun og þar kemur fram að það er ýmislegt í gangi sem er vel. Ég tel hins vegar að við þurfum að setja aukinn kraft í ýmsar framkvæmdir sem þar eru og vil nefna matarbankann sem dæmi og boða það að ég muni halda áfram að fjalla um þessi mál og ég vona að ég fái þingheim til liðs við mig í það.