154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lít á það sem skyldu stjórnvalda að gera almenningi kleift að taka ötul og stórstíg skref í átt að breyttum ferðavenjum. Þar gildir að gefa í varðandi Strætó því að við getum ekki búið við óbreytt ástand. Við verðum að standa vörð um markmið samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs þar sem farþegatekjur drógust verulega saman á sama tíma og stjórnvöld báðu um að haldið yrði úti óskertri þjónustu.

Í umsögn Reykjavíkurborgar við frumvarp til fjárlaga sem nú liggur fyrir kemur fram að stjórnvöld hafa aðeins viljað láta brot af þeirri fjárhæð af hendi rakna til Strætós, eða aðeins 120 millj. kr. af því 990 millj. kr. aukaframlagi sem sóst var eftir. Þetta er svarið við skertum farþegatekjum sem námu 1,7 milljörðum kr. á tveggja ára tímabili. Strætó stendur frammi fyrir gífurlega erfiðri stöðu og hefur verið að ganga á eigið fé sem og uppsafnað handbært fé sem átti að nota til að endurnýja flotann og bæta þjónustu, að ótöldum þeim áhrifum sem heimsmarkaðshækkanir á olíu hafa haft á reksturinn. Fast framlag ríkisins hefur jafnframt hvorki verið verðbætt frá 2014 né hafa framlög til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu notið sömu hækkana og á öðrum landsvæðum eða aðrar samgönguleiðir á sviði almenningssamgangna.

Ég vil taka undir orð borgarstjóra um að það sé algjört ábyrgðarleysi af ríkinu að leggja fram fjárlagafrumvarp sitt án þess að bæta sveitarfélögunum upp það sem vantar í fjármögnun þeirra, sem hefur gríðarleg og alvarleg áhrif á fjárhag sveitarfélaganna og verkefni um allt land.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að unnið verði að áframhaldandi uppbyggingu og fjármögnun á hágæðaalmenningssamgöngum og öðrum samgöngumannvirkjum á grundvelli sáttmálans. Fyrr má nú aldeilis vera. Sér ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fyrir sér að þetta verði til þess að fækka bílum sem aka um með einum farþega í umferðinni með tilheyrandi umhverfisspjöllum? Verður þetta stolt þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr til loftslagsmála og breyttra ferðavenja?