154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:20]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur fyrir að standa fyrir þessari umræðu. Regluverk um sjókvíaeldi, hvatarnir og viðurlögin þurfa að vera með þeim hætti að það borgi sig ekki að standa í þessum rekstri nema hlutirnir séu í lagi og vistkerfisáhrifin séu lágmörkuð með bestu mögulegu tækni og öruggustu aðferðum sem völ er á. Þetta er grundvallaratriði og það verður engin sátt um þessa grein nema hert verði verulega á eftirlitinu og þeim kröfum sem eru gerðar til fyrirtækjanna.

Hér hefur verið talað um slysasleppingar en það er auðvitað ekkert hægt að líta á það eins og hvert annað slys þegar kynþroska eldislaxar sleppa í tugþúsundatali og menga villtu laxastofnana okkar. Ef viðmiðið þegar kemur að laxastroki á að vera „zero tolerance“, svo ég sletti, en þetta er orðalag sem ég held að ráðuneytisstjóri matvælaráðuneytisins hafi notað og gott ef ekki ráðherra líka á blaðamannafundi núna á dögunum, og ef við ætlum að setja ábyrgðina og sönnunarbyrðina alfarið á fyrirtækin sjálf þá ættum við kannski bara að hætta að nota orðið slysaslepping og tala um gáleysissleppingu.

Mér líst vel á þær aðgerðir sem eru boðaðar í nýrri stefnu hæstv. matvælaráðherra um lagareldi og ég hlakka til frekari umfjöllunar um þá vinnu hér á Alþingi. Ég held að hér sé hæstv. ráðherra að gera vel. Það væri fróðlegt að heyra frá ráðherra í seinni ræðu hennar hvort hún geri ráð fyrir að þær hertu reglur sem til að mynda verður mælt fyrir í frumvarpi til laga um fiskeldi hér á vorþingi muni koma strax til framkvæmda eða hvort fyrirtækjunum verði gefinn einhver nokkurra ára aðlögunartími þegar kemur að þessum grundvallaraðgerðum sem er fjallað um í stefnunni.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska og þingmönnum er ráðlagt að finna íslenskun á því orðalagi sem þeir telja nauðsynlegt að koma á framfæri.)