154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:55]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum umræðuna. Grundvallaratriðið er þetta: Eldislax á að vera í kvíum en ekki utan þeirra. Öll umræða um að það sé ekkert svo alvarlegt eða slæmt fyrir villta laxa að eldislax sleppi eða að það sé engin hætta er ekkert gagnleg og hún skilar engu. Blöndun eldislaxa við villta stofna er háalvarlegt mál. Það er enginn ágreiningur um það heldur í vísindasamfélaginu að svo sé og ef einhver vafi leikur á um þau áhrif þá á náttúran að njóta þess vafa. Það er í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttarins og vistkerfisnálgun sem íslensk lög gera ráð fyrir.

Hér var, með leyfi forseta, talað um „zero tolerance“ og mín íslenskun á því er: Engin frávik án afleiðinga. Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson spurði um það hvenær þetta yrði komið til framkvæmda að fullu. Við gerum ráð fyrir því að það sé þessi aðlögunartími til ársins 2028 þegar fyrsta varðan er í raun og veru á þessari vegferð og tíminn fram að því verði tími fyrir greinina til að aðlagast breyttu umhverfi, bæði með hvötum og viðurlögum.

Varðandi spurningar hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur um rannsókn á innlendum stofnum til eldis þá hef ég ekki upplýsingar um stöðu slíkrar nálgunar en mér skilst að mesti krafturinn í rannsóknunum sé í því að þróa ófrjóan lax, að það séu áherslurnar. Hv. þingmaður velti líka fyrir sér fjármununum og í fjármálaáætlun, sem þegar liggur fyrir og er samþykkt hér í þinginu, er gert ráð fyrir 2,2 milljörðum á næstu fimm árum til aukins eftirlits.

Ég vil hér að lokum þakka afgerandi stuðning við þá stefnumótun sem stendur yfir þvert á stjórnmálaflokka og flokka hér í þinginu. Við þurfum að gera þetta vel. Við höfum góðan grunn til að gera það, getum gert það og eigum að gera það vegna þess að það skiptir máli fyrir bæði atvinnulíf í landinu, umhverfi, samfélag og náttúru.