154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

almenn hegningarlög.

229. mál
[15:12]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að taka svona vel í þetta og ég er sammála þingmanninum um að við eigum að þróa áfram okkar fangelsismál með það fyrir augum að þau séu líklegri til að leiða til betrunar frekar en refsivistar. Í þessu tilfelli, eins og kom fram í greinargerðinni, þá vill það oft verða þannig að dómarar veigra sér við að dæma til óskilorðsbundinnar refsingar ef brotamaður er ungur og það safnast upp margir skilorðsbundnir dómar sem hafa svo áhrif á þyngd dóms þegar hann á endanum verður óskilorðsbundinn. Miklu réttara er að fara mildilegri leið að hlutunum og aðstoða einstaklinginn sem, eins og hv. þingmaður kemur inn á, hefur oft ratað af klaufa- eða vitleysishætti úti í hegðun sem hefði betur verið látið ógert. En við þekkjum öll að það er auðvelt að misstíga sig. Takk fyrir að taka vel í þetta.