154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu kynsegin fólks.

103. mál
[16:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir framsöguna á þessu frumvarpi. Ég tek undir með frummælanda og vil einnig styrkja stöðu kynsegin fólks. Heilt yfir líst mér nokkuð vel á þetta frumvarp. Ég er sammála hv. þingmanni um það að mikilvægt er að halda áfram að spinna við þau gríðarlega mikilvægu lög sem Alþingi setti, lög um kynrænt sjálfræði, og önnur lög sem tryggja réttarstöðu kynsegin fólks á Íslandi.

En það eru nokkur atriði í þessu frumvarpi — ég ætla alls ekki að ganga svo langt að segja að ég sé á móti þeim og skil algerlega hvað flutningsmönnum gengur til með þeim — sem mér finnst mikilvægt að verði skoðuð við vinnu nefndar til að þau nái örugglega fram þeim góða og mikilvæga ásetningi sem felst í þessu frumvarpi. Þetta snýst um 2. og 3. gr. Ég vil endurtaka, þannig að það sé alveg skýrt, að ég skil hverju er verið að reyna að ná fram. Tilgangurinn er svo sannarlega góður og til þess að bæta réttarstöðu fólks. Annars vegar er það útgáfa aukavegabréfs. Ég veit að uppi er ákall úr hinsegin samfélaginu um að þetta verði gert. Ég skil mætavel rökin og öryggistilfinninguna í því að geta haft annað vegabréf sem er ekki með kynhlutlausa skráningu. En mér finnst mikilvægt að nefndin skoði mjög vel hvort upp geti komið óvæntar og neikvæðar hliðarverkanir af því. Nú er ég ekki sérfræðingur á þessu sviði þannig að mér finnst mikilvægt að nefndin skoði það.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi sem dæmi í framsöguræðu sinni, réttilega, óttann við það að þurfa að sýna lögreglu á sumum svæðum heimsins vegabréf með kynhlutlausa skráningu. Þá velti ég fyrir mér hvað gerist þegar einstaklingur er handtekinn og hefur tvö vegabréf í fórum sínum. Kannski er það smávægilegt atriði til að hafa áhyggjur af og skiptir minna máli en ávinningurinn af hinu. Engu að síður finnst mér þetta vera atriði sem skiptir máli að fara í gegnum við umfjöllun nefndarinnar. Ég er hjartanlega sammála því að vegna þess hvernig staðan er í heiminum er mikilvægt að við hér á Íslandi, sem búum við þá framsæknu löggjöf sem við höfum miðað við marga aðra, tökum mið af því að við þurfum að sjálfsögðu að tryggja öryggi og ferðafrelsi kynsegin fólks með þeim aðferðum sem við getum notað.

Hitt sem ég velti fyrir mér er breytingin á 3. gr. Aftur skil ég algerlega hvað þeim sem standa að þessu frumvarpi gengur til með henni. Hana þarf að skoða aðeins betur. Eftir því sem mér skilst, en hef þó engin gögn til að bakka það upp, hefur framkvæmdin verið sú að það sé ekki erfitt að breyta kynskráningu sinni oftar en einu sinni ef þess er óskað. Það er vissulega þannig að færa þarf fyrir því rök, og ég dreg ekkert úr því að einhverjum kunni að finnast það óþægilegt eða bara óþarfa vesen. Breytingin sem hér er lögð til, að meira en eitt ár sé liðið frá síðustu breytingu — ef ég les hana í samræmi við það sem er sagt í lögskýringu um 7. gr. laga um kynrænt sjálfræði þá er þar sérstaklega tekið fram, með leyfi forseta:

„Þá er rétt að hafa í huga að komið geta upp sérstakar aðstæður þar sem einstaklingur óttast um öryggi sitt noti hann skilríki með breyttri kynskráningu, til dæmis í ferðalögum eða við dvöl í löndum þar sem miklir fordómar ríkja í garð hinsegin fólks.“

Þá gæti ákveðinn hópur, miðað við þessa lögskýringu og óbreytt lög, breytt kynskráningu sinni til baka vegna fyrirhugaðra ferðalaga. Það væri þó ekki mögulegt fyrr en eftir ár miðað við breytinguna. Þetta er atriði sem mér finnst mikilvægt að verði skoðað í meðförum nefndarinnar út frá ólíkum hliðum, sjónarmiðum og hagsmunum.

Mig langaði að taka til máls við 1. umræðu um þetta frumvarp til að vera almennt jákvæð í þess garð og taka undir mikilvægi þess að við höldum áfram að styrkja lagagrundvöllinn og spinna við þau góðu en þó ekki fullkomnu lög sem við höfum um kynrænt sjálfræði. Ég vildi vekja athygli á hlutum sem ég tel að séu í það minnsta skoðunar virði inni í nefnd án þess að ég vilji slá því föstu að ég sé á móti því sem segir í frumvarpinu. Mér finnst þetta bara. Ég er ekki alveg viss.

Ég vil að þessu sögðu þakka fyrir að þetta frumvarp sé komið fram. Ég veit að í þessu máli eins og öðrum vinna nefndir almennt vel og taka það veganesti sem kemur fram í þingumræðum inn í vinnu sína.