154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu kynsegin fólks.

103. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir það að ég held að það sé eitthvað sem nefndin eigi hiklaust að skoða. Eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni var ekki mitt fyrsta val að leggja til þessi aukavegabréf. Það orkar tvímælis að búa til einhver platvegabréf til að fólk geti verið öruggt úti í heimi. Einfaldast hefði mér þótt að fjarlægja kynskráningu úr vegabréfum almennt og þar með værum við öll á sama stað þegar við erum á ferðalagi. Kannski er það fær leið, kannski ekki. Ef ekki, þá vona ég að nefndin beiti skapandi hugsun í þessu verkefni. Það sem við erum sammála um er að hér er vandamál sem þarf að leysa. Hluti af vandamálinu, og ástæða þess að þetta frumvarp er lagt fram, er að ráðuneyti átta sig ekki nógu vel á vandanum. Ég vísa til tveggja fyrirspurna sem ég fékk svör við á 152. löggjafarþingi, annars vegar frá dómsmálaráðherra og hins vegar frá forsætisráðherra. Þar skein í gegn að þau áttuðu sig varla á því að þetta væri vandamál og sögðu að ef þetta væri vandamál væri það á þeim skala að þau hefðu aldrei frétt neitt af því. Ég held að þeim nægði að mæta á félagsfund hjá samtökunum Trans Ísland til að fá fréttir af fólki sem lítur á þetta sem raunverulegt vandamál dagsins í dag. Þó að þetta frumvarp gerði ekki annað en að ýta við ráðuneytinu svo að það fattaði stöðuna og áttaði sig á því að hér þarf að bregðast við á einhvern hátt þegar fólk með kynhlutlausa skráningu og aðstandendur þeirra vita ekki einu sinni til hvaða landa er öruggt að ferðast og vita ekki hvaða lönd taka gild ferðaskilríki með hlutlausa skráningu — ríkið þarf að stíga inn og tryggja öryggi þessara einstaklinga.