154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu kynsegin fólks.

103. mál
[16:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með það að við eigum í umræðu um þetta mál og hugsum í lausnum sem eru til hagsbóta fyrir kynsegin fólk, fólk með hlutlausa skráningu og fólk sem hefur breytt kynskráningu sinni, lausnum sem miða að hag þeirra og velferð. Það er því miður þannig að ekki verður við öllu séð á Íslandi um það hvernig heimurinn er. Við leggjum auðvitað okkar af mörkum á alþjóðavettvangi hér eftir sem hingað til og tölum fyrir jafnrétti og málefnum hinsegin fólks, og höfum staðið okkur nokkuð vel í því. Ég er sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að finna bestu leiðina til þess að tryggja öryggi fólks á ferðalagi í heimi sem er allt öðruvísi en ég og hv. þingmaður myndum vilja sjá hann, og sem betur fer allflestir aðrir, þegar kemur að jafnrétti og málefnum hinsegin fólks. Við verðum að passa það, um leið og við förum út í breytingar, að hafa hugsað það til enda hvort við séum að skapa óvænta eða óúthugsaða hættu fyrir fólk sem tilgangurinn er að auka öryggið hjá.