154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu kynsegin fólks.

103. mál
[16:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist ég og hv. þingmaður í raun líta á þessa 3. gr. og tilgang hennar í það minnsta dálítið svipuðum augum. Það er rétt að þjóðskrá hefur, að því er virðist, verið lipur þegar kemur að því að gera breytingar. En ég er sammála hv. þingmanni í því að það eru ekki endilega nægjanlega góð rök. Við vitum það alveg að áður en við breyttum þungunarrofslöggjöfinni hér á landi þá var ekkert sérstaklega erfitt fyrir konur að sækja um að komast í þungunarrof. Þú þurftir hins vegar að gera það í gegnum lækni eða einhvern heilbrigðisstarfsmann. Þannig að sú sem hér stendur er alveg tilbúin til að skoða það að fella það algerlega út úr lögunum að það þurfi að vera einhver mörk á því hversu oft þú getur gert þetta. En ég vil alla vega að það sé skoðað í nefndinni hvort þessi breytingartillaga hér sé endilega til bóta því að líkt og ég lýsti í ræðu minni þá er þetta ákveðið öryggisatriði fyrir fólk sem vill vegna ferðalaga eða telur nauðsynlegt að breyta kynskráningu sinni aftur. Og kannski þegar við lítum til baka þá kemur í ljós að þessar sérstöku ástæður, sem nú eru skrifaðar inn í lögin, hafi bara verið einhvers konar byrjunarpunktur í þessu ferli, að fólk geti breytt kynskráningu sinni. En það verður tíminn auðvitað að leiða í ljós.