154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

föst starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.

327. mál
[17:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti ágætt og vænt um það í rauninni að þessi tiltekni þingmaður birtist með þetta mál vegna þess að ég veit að hann hefur áhuga á þessu, hann hefur vit á þessu og hann hefur talað um þetta í langan tíma þannig að mér fannst felast ákveðinn trúverðugleiki í því. Ég er bara ánægður að fylgja honum sem meðflutningsmaður, treysti honum vel til þess að berjast fyrir þessu. En ég er bara að blása honum smá anda í brjóst og hann verður þá að sýna það í sínum nefndarstörfum í fjárlaganefnd að hann meini eitthvað með því vegna þess að það er einfaldlega ekki hægt að sætta sig við það að stjórnarþingmenn séu sífellt að koma með einhvern óskalista og alveg frábær mál, veifa því og senda á Austurgluggann eða Dag á Akureyri og hvert sem er og birta það en eru síðan ekki tilbúnir til að berjast fyrir því í fjárlaganefnd. Ég minni bara á það sem fyrrverandi fjármálaráðherra tönnlaðist nú á í tíma og ótíma: Fjárveitingin liggur hjá þinginu, sagði hann ævinlega. Samt alltaf fullviss um að það yrði náttúrlega bara afgreitt nákvæmlega eins og hann vildi. Sýnum núna hvar fjárveitingin liggur, hún liggur hjá þinginu, og látum það ekki koma fyrir að Landhelgisgæslan sé eins fjármögnuð og hún hefur verið og það sé gerð aðhaldskrafa á hana í ofanálag og þá getum við hv. þingmaður talað betur saman vegna þess að þá eru miklu meiri líkur á að við náum þessu næsta skrefi sem ég veit að hv. þingmann dreymir um og ég skal berjast með honum í því.