154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

föst starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.

327. mál
[17:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta verður væntanlega Norðausturkjördæmisumfjöllun í þessu, eðlilega. Við erum flytjendur að þessu hér, flest okkar sem hér erum að taka til máls, eða öll, held ég. En ég verð nú bara að byrja á að segja, í ljósi þessarar fjárlagaumræðu, sem er dálítið skemmtileg, hafandi verið þar í tíu ár, að ég held að fjármálaráðuneytið sé eiginlega enn þá í áfalli eftir síðustu fjárlög þar sem svo sannarlega var ekki endilega farið ósk þáverandi fjármálaráðherra heldur tók þingið fyrst og fremst málið í sínar hendur og kannski vorum við jafnvel dálítið drjúg. Ég ætla ekki að neita því og ég er ekki sannfærð um að það verði alveg eins á þessu þingi, enda eru aðstæður í samfélaginu auðvitað með þeim hætti að við þurfum að vanda okkur mjög vel.

Ég ætla að vera sammála hv. þingmanni og flytjanda þessa máls um það að þetta er eitt af því sem við erum ekki að fara að bæta við í núverandi fjárlög, heldur erum við fyrst og fremst að fara með þetta og reyna að vinna þessu framgang í gegnum fjármálaáætlun í rólegheitunum. Við vitum það alveg að allt tekur tíma og þetta eru stórar og miklar fjárhæðir sem ekki verða rifnar upp úr rassvasanum. Hitt er svo aftur annað mál að við erum bæði með lögregluna fyrir norðan og Gæsluna, sem við þurfum að huga að og horfa ofan í þessar aðhaldsprósentur sem ég var ekki sátt við, af því að nú er formaður fjárlaganefndar hér í hliðarsal. Við ræddum þetta talsvert í aðdraganda fjárlagagerðarinnar núna, að niðurskurðurinn væri ekki þvert á ráðuneyti heldur yrði horft betur til hans. Það vantar sannarlega betri greiningar til þess að það sé hægt að gera það með skýrum og góðum hætti og að því þurfum við að vinna þannig að við getum tekið enn betri ákvarðanir að mínu mati, bara svona almennt. En þetta var nú um fjárlögin.

Ég held að það sem er í þessu máli hafi bara sýnt sig og sannað, og núna síðast í kringum verslunarmannahelgina, hvað það skiptir miklu máli upp á viðbragð að gera að hafa þyrluna á Akureyri. Þar sáum við svart á hvítu viðbragðstímann og annað og hvað það hefur mikið að segja að geta gripið í vélina í staðinn fyrir að þurfa að fá hana sunnan úr Reykjavík. Við þingmenn kjördæmisins funduðum með Sjúkrahúsinu á Akureyri og fengum góða kynningu hjá fluglækni, Birni Gunnarssyni, sem var með rannsóknarteymi þar sem staðsetning þyrlu eða þyrlna var undir. Þar erum við sannarlega komin með alvörugögn í hendurnar sem gætu kannski lyft þessu upp fyrir það sem kallað er nú gjarnan kjördæmapot, að það sé verið að reyna að koma einhverju út í kjördæmin svona bara af því bara. Þessi rannsókn var styrkt af bæði vísindarannsóknasjóði SAk og Rannís. Við erum að tala um fólk sem hefur mikla þekkingu. Björn hefur verið yfirlæknir sjúkraflugs frá árinu 1996 og verið fluglæknir á sjúkra- og björgunarþyrlum í Bandaríkjunum, Noregi og Grænlandi og búinn að vera í samráðshópi um sjúkraflug frá því 2018 og þá um þessa auknu aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. Þannig að við erum að tala hérna um aðila sem hefur talsvert mikla reynslu af því að sinna þessu mikilvæga starfi sem ég held að við myndum öll vilja hafa dálítið á þurru ef við þyrftum á því að halda. Það sem manni fannst kannski skondnast í þessari kynningu var að besti punkturinn væri Grímsstaðir á Fjöllum. Það er kannski ekki raunhæft bara sökum þess hvar Grímsstaðir á Fjöllum eru.

En varðandi þekjun, þ.e. svæðið sem þyrla staðsett á Akureyri nær yfir versus það að hafa þetta með þessum hætti sem við erum með þetta núna, er auðvitað gríðarlega mikið; að fara úr 66% og yfir í 94% — 66% eins og þetta er í dag upp í sirka 94%, ef þær eru staðsettar á Akureyri og hér. Það hlýtur að skipta landsmenn miklu máli því að ekki síst á svæðum eins og bara á hálendinu og fyrir austan og alls staðar þar sem við erum að horfa á þetta svæði er ekki endilega auðvelt um að fara eða að lenda og annað slíkt þannig að þetta er eitthvað sem er miklu stærra, held ég, en margur gerir sér grein, fyrir utan svo allan túrismann sem er á okkar svæði og oft einmitt uppi á hálendinu. Því miður hefur dregið aðeins úr hálendiseftirliti lögreglunnar. Það er eitt af því sem við þurfum einmitt líka að horfa til.

Í sjálfu sér hef ég ekki tilfinningu fyrir því að nokkur sé á móti þessu. Á endanum, eins og hér hefur verið rætt, skiptir þetta bara máli fjárhagslega, þ.e. hvar við forgangsröðum þessu til að gera sem best og mest úr fjármununum. En þarna undir eru auðvitað mannslífin, sannarlega. Eins og kemur fram í greinargerðinni er ánægjulegt að sjá að Landspítalinn komi að þessu með ákveðinni umsögn um að það sé mikilvægt í ljósi jöfnunar á heilbrigðisþjónustu landsmanna yfirleitt að þyrla sé staðsett fyrir norðan. Sjómannasambandið, -félögin, útgerðarmenn og aðrir hafa mælt með því að þetta verði gert. Einnig hefur, eins og ég nefndi, lögreglan eða aðalvarðstjóri lögreglunnar á Akureyri, eins og kemur hérna fram, og forstjóri sjúkrahússins sagt við okkur að þetta skipti máli. Við höfum beinlínis fengið það beint í æð af hálfu þessara aðila að þetta sé eitthvað sem skipti miklu máli.

Ég trúi því að þegar farið verður að skoða þetta ofan í kjölinn með þessar greiningar sem núna liggja eftir hjá Birni og hans félögum þá sé líka ráðuneytið komið með miklu meira í hendurnar til að segja: Það er skynsamlegt að gera þetta svona. Já, þetta kostar en mannslíf kosta. Það er bara þannig. Dropinn holar steininn í þessu. Eins og framsögumaður kom inn á þá er maður er ekki svo „blunt“ að maður haldi það að þetta geti gengið í gegn núna, bara korter fyrir sex. En sannarlega er þetta eitthvað sem við erum hér með að koma á samtali um með gögnum. Þess vegna ætti það að auðvelda ráðherranum og ríkisstjórninni og okkur hinum að fylgja þessu máli enn þá betur eftir.