154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

merkingar á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

107. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu. Mér finnst nauðsynlegt að taka það fram í upphafi míns máls hér að í ljósi stöðunnar og þeirra hræðilegu frétta sem hafa verið að berast síðustu daga frá botni Miðjarðarhafs og ekki síður núna á síðustu mínútum um að heilt sjúkrahús hafi verið sprengt í loft upp, þar sem a.m.k. 500 manns virðast hafa verið drepin, er þetta mál sett í það samhengi að í hinni stóru mynd hlýtur það að ég sé að mæla fyrir því hér á Alþingi í dag fyrst og fremst að vera táknrænt þó svo að það skipti máli í hinu stóra pólitíska samhengi. Ég ætla að reyna að koma betur að því í ræðu minni.

Tillagan gengur út á það að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.

Þetta mál hefur þó nokkuð oft verið lagt fram hér á Alþingi en hefur ekki hlotið afgreiðslu, en í mínum huga stendur það algerlega fyrir sínu enn þá þó svo að auðvitað séu allt aðrir þættir sem skipta meira máli akkúrat núna. En það var engu að síður þannig að ég var búin að leggja þetta mál fram og ég gleðst yfir því að það hafi komist hér til umræðu nú.

Þessi ofbeldishrina með gegndarlausum árásum á almenna borgara hófst fyrir nokkrum dögum með árásum Hamas á óbreytta borgara í Ísrael. Ég get aldrei stutt við það að óbreyttir borgarar séu drepnir með þessum hætti þó svo að ég skilji pólitíska samhengið sem ákveðnir atburðir spretta úr. En síðan þá höfum við, líkt og ég talaði raunar um í störfum þingsins á þriðjudaginn, séð það gerast að Ísraelsmenn ráðast á Gaza, á almenna borgara, og hafa lokað fyrir flutning á vatni, mat, lyfjum og rafmagni og eldsneyti inn á Gaza og segjast ætla að hefja þar landhernað. Ég verð að viðurkenna að ég bind vonir við að Bandaríkjamönnum, sem ég hef nú ekki alltaf talið mína helstu bandamenn þegar kemur að málefnum Ísraels og Palestínu, takist að draga úr spennu og átökum núna, eins og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, virðist hafa verið að reyna síðustu daga en augljóslega ekki tekist, líkt og sjá má á árásinni á sjúkrahúsið áðan.

Það sem er að gerast í dag, það sem er að gerast þessa dagana, á sér áratugalanga sögu og má í raun rekja allt aftur til stofnunar Ísraelsríkis árið 1948. En það mál sem ég er að tala um hér, um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu, má eiginlega segja að geti rakið rætur sínar til ársins 1967 og ég ætla aðeins að koma að því á eftir.

Líkt og Erlingur Erlingsson benti á í Kastljósi í gær þá er erfitt að sjá einhverja vonarglætu eða friðsamlegar lausnir fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann benti á hvernig margir þekkja hvernig Ísraelsmenn hafa undanfarin ár grafið undir tveggja ríkja lausninni sem var samið um í Ósló undir lok síðustu aldar með mjög aukinni landtöku á Vesturbakkanum og að stjórn Netanyahu, sem nú er við völd þar, eigi sér bandamenn sem eru mjög harðir landtökumenn, þ.e. á Vesturbakkanum og það er í rauninni það svæði sem mín þingsályktunartillaga snýr að. En við erum að horfa upp á árásir á Gaza akkúrat núna. Þetta eru svona tvö meginlandsvæðin sem Palestínumenn búa á og með landtökustríðum Ísraelsmanna hefur þeim tekist að sneiða endalaust af því svæði sem Palestínumenn hafa til að búa á. Gaza er einhver þéttbýlasti staður í heiminum. Það er talað um að síðustu daga hafi milljón manns af tveimur milljónum verið á flótta vegna árásanna sem þar hafa verið gerðar.

Mér finnst mikilvægt að minna á það að hér á Alþingi var 29. nóvember árið 2011 samþykkt þingsályktun um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Þá ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skoraði Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis. Þann 15. desember sama ár staðfestu með formlegum hætti þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson og dr. Riad Malki, þáverandi utanríkisráðherra Palestínu, upptöku á stjórnmálasambandi milli Íslands og Palestínu. Þetta var um að virða landamærin frá árunum 1967. Svo, líkt og ég sagði áðan og vitnaði í Erling Erlingsson, hafa Ísraelsmenn grafið undan tveggja ríkja lausninni og staðið að mjög aukinni landtöku á Vesturbakkanum og auðvitað hefur það áhrif bæði Vesturbakkamegin og á Gaza.

Þá komum við að efni þingsályktunartillögunnar. Hún snýst sem sagt um það, hún er ekki róttækari en svo, að vörur sem framleiddar eru á ólöglegum landtökubyggðum verði merktar sérstaklega þannig að íslenskir neytendur geti séð að þar sé um að ræða vöru sem á uppruna sinn á landi sem tekið hefur verið með ólögmætum hætti.

Ég sagði hér áðan að Gaza væri eitthvert þéttbýlasta svæði heims en Vesturbakkinn er ekkert sérstaklega stór heldur. Hann mun vera um 6.000 km² eða töluvert minni en Vestfjarðakjálkinn. Ég veit ekki hvað landtökubyggðirnar eru margar núna en ég veit að fyrir rúmum áratug voru þar ríflega 300.000 ísraelskir landtökumenn, bara til að setja stærðirnar í eitthvert samhengi. Ísland hefur ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta af Ísraelsríki. Í mínum huga er því augljóst að það ætti því ekki heldur að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar eru í landnemabyggðunum.

Mér finnst því algerlega augljóst mál að auðvitað á að samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Það er auðvitað ekkert nema táknrænt að segja það hér, í ljósi atburðanna og í ljósi þess hörmungarástands sem fólkið í Palestínu býr við í dag, að Íslendingar eigi að vita hvaðan vörurnar þeirra eru og geta valið þess vegna að kaupa ekki vörur sem eiga uppruna sinn á ólöglegum landnemabyggðum.

Herra forseti. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að snúa ofan af því óréttlæti sem hefur fengið að viðgangast í áratugi með því að Ísrael hefur farið langt út fyrir þá samninga sem gerðir hafa verið og með ólöglegri landtöku og kúgun á Palestínumönnum sölsað undir sig æ meira land. En auðvitað er hin stóra krafa hér og nú að stöðva ofbeldið sem viðgengst akkúrat hér og nú. Það er augljóst að óbreyttir borgarar og almenningur í Palestínu býr við það ástand að líf þeirra er hvergi óhult. Það sýna árásir á sjúkrahús. Það sést á því að það er búið að loka fyrir hita og rafmagn. Og sjúkrahús sem uppi standa verða ekki starfhæf vegna þess að það er ekki olía eða rafmagn til þess að reka þau.

Alþjóðasamfélagið verður að stíga fast til jarðar og krefjast þess að látið verði af árásunum tafarlaust og svo verður að beita sér fyrir því að það náist lausn til framtíðar sem tryggir frið, sem tryggir það að almenningur á svæðinu eigi sér einhverja framtíð. Þess vegna, eins skrýtið og það nú er að mæla fyrir þessari hógværu þingsályktunartillögu, þá get ég ekki annað en sagt að það er partur af því sem þarf að vera langtímaplanið. Við verðum að gera allt sem við getum til þess að það komist á réttlæti og friður í Palestínu og við botn Miðjarðarhafs. Eitt lítið framtíðarskref er að samþykkja þessa tillögu og ég vona að almenningur sjái það í ljósi atburðanna sem eiga sér stað akkúrat núna meðan ég stend hér að það verður að finna lausn sem gerir það að verkum að almenningur í Palestínu sé óhultur og geti átt sér framtíð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)