154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

merkingar á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

107. mál
[18:57]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því, af því að mér láðist að geta þess, að ég er nú ekki ein flutningsmaður að þessari tillögu heldur eru flutningsmenn að henni auk mín hv. þingmenn Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðbrandur Einarsson og Jóhann Páll Jóhannsson. Ég vildi bara að það kæmi fram en auðvitað stendur þetta allt í þingskjalinu sem þessi tillaga er lögð fram á. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma hér upp og ræða þessi mál. Það er margt sem við erum sammála um en við erum líka ósammála um ýmislegt, þ.m.t. leiðir. Ég vil bara ítreka það að þetta mál snýst ekki um sniðgöngu heldur snýst um að merkja vörur þannig að fólk geti þá valið sjálft hvort það vilji sniðganga vörur. Ég heyri hin efnahagslegu rök sem hv. þingmaður kemur hér með, hann telur að það myndi hafa slæm áhrif á efnahag margra Palestínumanna ef ekki væru keyptar ísraelskar vörur. Ég tel að það hafi önnur og alvarlegri áhrif í för með sér ef ekkert verður að gert og Ísraelsmenn halda áfram að taka land af Palestínumönnum því þar mun eðlilega áfram verða vegið að efnahagslegu sjálfstæði Palestínumanna og spurning hvernig þeir eigi að geta spornað gegn atvinnuleysi þegar þeir hafa í raun ekkert land eftir til að vera í neinni starfsemi á. En mig langar, herra forseti, að spyrja hv. þingmann vegna þess að ég veit hann hefur áhuga á þessum málum: Hvað telur hann að gæti verið til lausnar, til að bæta stöðuna, þó svo að hann telji þetta mál augljóslega ekki vera innlegg í það?