154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

merkingar á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

107. mál
[18:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður lýsti hér í sinni fyrri ræðu er ástandið á þessu svæði afar alvarlegt og alls kostar óvíst hvernig þróunin verður. Hér eru að berast fréttir af því að það hafi verið gerð sprengjuárás á sjúkrahús sem ég fordæmi að sjálfsögðu og þar liggja í valnum fjölmargir óbreyttir borgarar þannig að staðan er mjög alvarleg. Hvað geti verið til að bæta þetta ástand? Ég get ekki svarað því, ég held að allir aðilar séu að reyna að gera sitt besta í þeim efnum til að draga úr þeirri spennu sem þarna ríkir og þeim árásum sem nú dynja á Gaza. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur átt langa fundi með ráðamönnum í Ísrael og í Egyptalandi og ég veit m.a. að framkvæmdastjóri UNSCO, sem er samræmingarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Miðausturlöndum, sem Wennesland, norskur sendiherra, fer fyrir, hefur átt fundi með Íran og með Hizbollah-hreyfingunni. Allir eru að gera allt sitt til þess að reyna að draga úr líkum á því að þetta breiðist út til nágrannalandanna. Staðan er alvarleg og ég get ekki lesið í þessa stöðu. Ég bara vona svo sannarlega að aðilar fari að setjast niður og reyna að finna flöt á þessari gísladeilu sem er náttúrlega mjög alvarleg og veldur því að spennan eykst. En að sama skapi held ég að hluti af rót vandans sé náttúrlega þessar landtökubyggðir sem ég hef ávallt fordæmt og verið á móti og þær brjóta í bága við alþjóðalög. Það er eitthvað sem verður að fara að taka enda og menn verða að finna lausn á.