154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er visst áhyggjuefni að við fáum upplýsingar um gríðarlega miklar kostnaðarhækkanir við svokallaða borgarlínu. Það þarf að leita skýringar á þessu. Borgarstjóri hefur m.a. nefnt sem skýringu að almennar hækkanir hafi orðið mjög miklar og útboð hjá Vegagerðinni séu að fara langt umfram kostnaðaráætlanir. Ég skoðaði þetta lauslega í dag og ef maður tekur útboð síðustu vikna hjá Vegagerðinni, stór og lítil, þá má segja að almennt séu þetta 70%, plús eða mínus, af kostnaðaráætlun sem verkin eru að fara á. Til að mynda átti núna stórt verk fyrir vestan að kosta um 1.300 millj. kr. en lægsta tilboðið var upp á 800 og eitthvað milljónir. Getur þetta legið í dýrari útfærslum, einhverjum flottræfilshætti þegar að því kemur að fara í þessar miklu framkvæmdir?

Umræðan um svokallaða Fossvogsbrú, sem á að kosta 7,5 milljarða, vakti athygli mína. Nú er verið að ljúka verki í Þorskafirði á 260 metra langri brú, jafn langri þeirri sem er fyrirhuguð yfir Fossvog. Það er 2,5 km vegagerð í kringum þá brú, sem sagt fyllingar beggja vegna, og heildarkostnaður við það verk er 2 milljarðar og 78 milljónir. Það á að byggja jafn langa 260 metra brú yfir Fossvog fyrir 7,5 milljarða. Ef hönnunarsamkeppni er nefnd fá margir skrýtna tilfinningu vegna þess að það þykir margfalda kostnaðinn og það á til að mynda við þegar menn tala um alþjóðlega hönnunarsamkeppni um brú yfir Sundabraut, sem ég held að menn þurfi að skoða mjög vel. (Forseti hringir.) Víðar er leitað matarholna í þessu, til að mynda var athygli mín vakin á því að í 14. gr. myndlistarlaga (Forseti hringir.) er 1% af heildarbyggingarkostnaði skilyrt til listaverkakaupa. Það eru 2 milljarðar í listaverkakaup við byggingu Landspítala.

(Forseti (BÁ): Forseta minnir á að ræðutími í störfum þingsins er takmarkaður við tvær mínútur.)