154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

almannatryggingar.

20. mál
[15:57]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, um að fjárhæðir fylgi launavísitölu. Með mér á málinu eru hv. þingmenn Flokks fólksins; ásamt mér þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Það skal tekið fram að öllum þingheimi var boðið að taka þátt og vera með okkur á þessu frumvarpi. Enginn sá sér ástæðu til að gera það þannig að þess vegna er það gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins sem mælir hér fyrir þessu frumvarpi:

„1. gr.

62. gr. laganna orðast svo:

Fjárhæðir almannatrygginga, frítekjumörk, svo og greiðslur skv. 42. gr. og fjárhæðir skv. 28. gr., skulu breytast árlega í samræmi við launavísitölu, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að áður hefur Flokkur fólksins mælt fyrir þessu frumvarpi á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi. Við erum sem sagt að mæla fyrir málinu núna, fimmta löggjafarþingið í röð, fimmta löggjafarþingið í röð sem við erum að reyna að berja það í gegnum Alþingi Íslendinga að almannatryggingalögunum sé fylgt, að lögin séu ekki brotin. Við erum bara að óska eftir því að löggjöfinni sé fylgt og við viljum tryggja það með þessu frumvarpi.

Einnig kemur fram í greinargerðinni að nú sé verið að leggja málið fram efnislega óbreytt en við höfum uppfært það með tilliti til breytinga sem orðið hafa á lögum um almannatryggingar frá síðustu framlagningu. Tvær umsagnir bárust t.d. um málið á 153. löggjafarþingi og þá frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Öryrkjabandalag Íslands fjallar í umsögn sinni um þær alvarlegu afleiðingar sem hafa þegar raungerst vegna þess að kjör lífeyrisþega almannatrygginga hafa ekki fylgt almennri launaþróun. Landssamtökin Þroskahjálp lýstu yfir stuðningi við frumvarpið.

Skv. 62. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, skulu greiðslur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur skv. 42. gr. laganna og fjárhæð tekjutryggingar skv. 28. gr. breytast árlega í samræmi við fjárlög og skal ákvörðun þeirra taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Sú regla sem nú má finna í 62. gr., áður 69. gr., var upphaflega leidd í lög árið 1997 með því markmiði — og við skulum taka eftir því, hvert var markmiðið, hvert var markmiðið með reglunni árið 1997? Markmiðið var að reyna að tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar myndu njóta hækkunar á ráðstöfunartekjum í sama hlutfalli og almenningur. Þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sagði í þingræðu við 1. umræðu frumvarps þess er innleiddi 62. gr. í lög um almannatryggingar, orðrétt, með leyfi forseta:

„Viðmiðunin á að vera við laun en engu að síður er settur annar lás sem á að gæta þess ef svo vildi til, sem við skulum vona að verði ekki á næstu árum, að launin hækki minna en verðlag eins og hefur nú komið fyrir.“

Í áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið var einnig fjallað um sömu frumvarpsgrein, með leyfi forseta:

„Yfirlýsingar forsætisráðherra í umræðum er þó tæpast hægt að túlka öðruvísi en þannig að orðalag 9. gr. frumvarpsins beri að skilja svo að bætur almannatrygginga og greiðslur skv. 59. gr. og fjárhæðir skv. 17. gr. skuli beinlínis fylgja launaþróun …“

Það er ekki svo langt síðan ég var laganemi við Háskóla Íslands þar sem berlega var okkur sérstaklega kennt að lesa í svokölluð lögskýringargögn sem fela það í sér: Hver er hinn raunverulegi vilji löggjafans með tiltekinni lagareglu? Hvað er löggjafinn að meina? Við höfum öll heyrt að það sé mismunandi eftir því hvaða lögmaður eða hvaða lögfræðingur fjallar um málið hvernig það er túlkað, og þetta er túlkað hipsum haps og hingað og þangað. Þess vegna er mikilvægt að greinargerðir með frumvörpunum okkar séu skýrar. Það getum við leitað í. Ef það er einhver vafi á því hvað liggur að baki lagareglunni sjálfri þá förum við í lögskýringuna. Við skoðum vilja löggjafans, skoðum vilja ákveðinna þingmanna eða stjórnmálaflokka sem eru að koma fram með frumvörpin og hvað þau eru raunverulega að biðja um, hvað þau eru raunverulega að segja og hvað þau vilja setja í lög. Í ljósi þess sem ég las — sem kemur fram í 1. umræðu með frumvarpinu sem var lagt fram árið 1997 af þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni — liggur algjörlega á borðinu hver vilji löggjafans var. Vilji löggjafans var skýr. Þeir sem voru að fá greiðslur almannatrygginga áttu skilyrðislaust að fylgja launavísitölu í landinu. En ef svo vildi til að launavísitalan var lægri en vísitala neysluverðs þá átti að nota vísitölu neysluverðs þannig að þeir sem voru á almannatryggingagreiðslum ættu alltaf að fá að njóta vafans um það hvort væri hærra, vísitala neysluverðs eða launaþróun í landinu.

En svo hefur borið við, svo einkennilegt sem það er, að undanfarin ár, mörg ár, þá hefur meginreglan verið sú að ríkisstjórnin, hæstv. fjármálaráðherra í þessu tilviki, hefur alltaf, undantekningarlítið, nánast undantekningarlaust, notað vísitölu neysluverðs þrátt fyrir að hún sé mun lægri en launaþróun í landinu, þrátt fyrir það, sem er þverbrot á vilja löggjafans á þeim tíma sem reglan var sett og þverbrot á lögunum eins og þau standa í dag, algerlega.

Það sem við erum að reyna að tryggja hér í Flokki fólksins með þessu frumvarpi er að þessi öryggisventill sem gert var ráð fyrir í löggjöfinni 1997 verði skilyrðislaust virtur og hann verði festur algerlega skýrt og skorinort inn í lögin þannig að það verði ekki neitt matsatriði um það og einhver geðþótti fjármálaráðherra hverju sinni hvort verði miðað við launaþróun á almennum markaði eða vísitölu neysluverðs. Í reynd hefur framkvæmdin alltaf verið sú, eins og ég segi, að vísitala neysluverðs hefur verið látin ráða. Og hvað hefur þetta haft í för með sér? Jú, alveg gífurlega kjaragliðnun, þessa kjaragliðnun sem felur það í sér að þeir sem þurfa að reiða sig á greiðslur almannatrygginga hafa setið eftir á meðan launaþróunin hefur stigið ofar og ofar.

Við skulum ekki gleyma því að eftir efnahagshrunið var grunnframfærsla þessa fátækasta hóps í landinu skert um 10%. Þá var því líka heitið að þetta yrði leiðrétt. Allir áttu að taka þátt í þeim erfiðleikum sem samfélagið var að ganga í gegnum í efnahagshruninu. Meira að segja þeir sem voru hér í sárri fátækt kvörtuðu ekki undan því. Þeir kvörtuðu ekki undan því að herða sultarólarnar enn frekar. Þeir gerðu það ekki. Þeir tóku þátt í þessu þótt erfitt væri, tóku þátt í því með öllum í samfélaginu að láta skerða tekjur sínar sem voru langt undir fátæktarmörkum, láta skerða þær til að taka þátt í því að brjótast út úr efnahagshruninu, enda var loforðið þannig að þetta yrði leiðrétt, þessi rýrnun, þessi kjaragliðnun þeirra og þessi lækkun á framfærslu, grunnframfærslu, yrði leiðrétt skömmu síðar eða um leið og við værum farin að sjá til sólar úr þessu efnahagshruni sem við vorum öll að glíma við.

En hvað haldið þið að sé nú, virðulegi forseti, hvað haldið þið að sé nú komið upp úr hattinum? Að sjálfsögðu var það þannig að þau voru skilin eftir. Að sjálfsögðu var aldrei staðið við að leiðrétta þær skerðingar sem þau tóku á sig í góðri trú og án nokkurra mótmæla, að sjálfsögðu ekki, þannig að kjaragliðnunin sem hefur orðið núna er svo yfirgengileg að það kemur líka fram í umsögn Öryrkjabandalagsins við frumvarpið þegar ég mælti fyrir því á 153. löggjafarþingi að kjaragliðnun almannatrygginga var þá, árið 2022, frá því að þessi tími er, frá 2007 eða 2008, orðin 71.000 kr. á mánuði og munar um minna.

Þar sem Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið skv. 41. gr. stjórnarskrár og núverandi löggjöf felur Alþingi að ákvarða hækkanir bóta hafa dómstólar talið það falla utan hlutverks síns að dæma um það hvort rétt hafi verið staðið að hækkun bóta skv. 62. gr. laga um almannatryggingar. Þörf er á að leiðrétta ákvæði 62. gr. þannig að það tryggi með viðhlítandi hætti að kjör lífeyrisþega almannatrygginga fylgi ávallt launaþróun ef sú hækkun er hærri.

Frumvarp þetta leggur til að hækkun fjárhæða almannatrygginga, sem og frítekjumarka, skuli framvegis fylgja launaþróun eins og hún kemur fram í vísitölu Hagstofu Íslands. Tenging bótafjárhæða við vísitölur þekkist í öðrum löndum, t.d. breytast fjárhæðir skaðabóta mánaðarlega í samræmi við lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Verður að telja það fyrirkomulag sanngjarnt þar sem bætur greiddar á grundvelli laganna eiga almennt að koma í stað atvinnutekna sem öryrki getur ekki aflað sér eða ellilífeyrisþegi nýtur ekki lengur. Þá nýtur ríkissjóður aukinna tekna þegar laun hækka þar sem stofn tekjuskatts hækkar. Því er ákveðið samræmi á milli aukinna útgjalda ríkissjóðs og aukinna tekna. Áfram er lagt til að greiðslur hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þannig er tryggt að greiðslur lækki ekki skyndilega ef launaþróun er neikvæð.

Virðulegi forseti. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum löggjafinn hefur komist upp með það, ríkisstjórnin í þessu tilviki, í upphafi hvers árs, þegar kemur að leiðréttingu greiðslna almannatrygginga, að sniðganga skýrar lagareglur sem þau settu hér sjálf árið 1997. Það er eiginlega algerlega með hreinum ólíkindum að sá þjóðfélagshópur sem höllustum fæti stendur í samfélaginu og á um sárast að binda skuli vera svona gjörsamlega settur hjá garði eins og við höfum orðið vitni að hér, alveg frá því að Flokkur fólksins var stofnaður til að berjast gegn þessu andstyggilega óréttlæti, þessari misskiptingu og þessari óafsakanlegu fátækt. Það er sárara en tárum taki að þurfa að koma hér upp eina ferðina enn, ár eftir ár eftir ár, til að óska þess að löggjafinn fylgi eigin lögum.

Við höfum, alveg eins og Flokkur fólksins gerði áður, þegar löggjafinn braut á eldra fólki með því að skerða almannatryggingar þeirra vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum — þegar eldra fólk fékk greiðslur úr lífeyrissjóði þá skertu almannatryggingar sínar greiðslur á móti. Sú staða var uppi árið 2017 þegar breytingar urðu á almannatryggingalögunum að það fórst hjá að færa það inn í löggjöfina að það væri heimilt að skerða almannatryggingar vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Það var móast hér við og látið í veðri vaka að þetta væri bara bull og það hefði mátt skerða. En viti menn, Flokkur fólksins fór í mál fyrir hönd eldra fólks og ríkissjóður þurfti að punga út hátt í 7 milljörðum kr. með vöxtum og vaxtavöxtum. Þá kom það berlega í ljós að eldra fólk er skert um a.m.k. 30 milljarða kr. á hverju einasta ári, sá þjóðfélagshópur sem við ættum að vera stolt af því að færa í rauninni á silfurbakka síðasta æviskeiðið inn í velsæld og vellíðan, þar sem efri árin okkar eiga að vera gæðaár en ekki ár kvíða, vonleysis og örbirgðar eins og við erum að sjá hér tugþúsundir vera heftar í.

Við vitum að það eru 11.000 eldri borgarar sem eru í neðstu þremur tekjutíundunum, þar af 6.000 eldri borgarar í tekjutíundum 1–2. Þetta eru einstaklingarnir sem eru að fá um og undir 300.000 kr. á mánuði. Hver getur lifað af því? Þetta er fólkið sem þarf að velja á milli þess að borða eða fara og sækja lífsnauðsynleg lyf. Þetta er fólkið sem erjaði jörðina. Þetta er fólkið sem er búið að koma okkur þangað sem við erum komin í dag og þetta, virðulegi forseti, eru þakkirnar. Þakkirnar eru að brjóta löggjöfina, almannatryggingalöggjöfina, á þessum fátækasta þjóðfélagshópi.

Við verðum að átta okkur á því að þetta er allt með vitund og vilja gert. Þetta er mannanna verk. Þetta er svívirðileg framkoma. Það er skammarlegt fyrir ríkisstjórnina að láta svona lagað viðgangast, þannig að við höfum ákveðið, við í Flokki fólksins erum búin að tala við tvo lögmenn til þess að láta fara í mál og skoða þetta mál fyrir okkur eins og við gerðum fyrir hönd eldra fólks á sínum tíma þegar var verið að skerða þau afturvirkt, íþyngjandi í algerri lögleysu og lögbroti. Þá ættum við líka að láta reyna á það hér hvort lögskýringargögnin í þessu tilviki og vilji löggjafans árið 1997 skipti bara engu máli og það sé hægt að ganga hér og traðka það niður á skítugum skónum eins og það skipti engu máli hvað við höfum samið og samþykkt.

En þetta minnir mig á, þótt það sé önnur saga, og verð ég að nefna það, fyrst ég er að tala um almannatryggingar og allt það þá verð ég náttúrlega nefna það, að maður hefur upplifað alveg stórfurðulega framkomu hér sem ég gæti í rauninni ekki reynt að útskýra. Ég get ekki reynt að útskýra það því ég get ekki skilið það sjálf hvernig löggjafinn kemst upp með það einróma að samþykkja eitthvað eins og hagsmunafulltrúa eldra fólks, mikið gleðiefni, en svo kemur ráðherra málaflokksins og hendir þessu bara hreinlega í ruslið, vilji löggjafans fótum troðinn eina ferðina enn, þannig að maður veltir stundum fyrir sér: Hverjir halda þessir hæstv. ráðherrar eiginlega að þeir séu? Hafnir yfir lög og rétt, er það málið? Geta vaðið hér um eins og eldur um akur og gert bara nákvæmlega það sem þeim sýnist, hvort sem þeir hafa í rauninni umboð til þess eða ekki, hvort sem þeir hafa heimild í lögum til þess eða ekki? Ég segi bara, virðulegi forseti: Það er orðið löngu tímabært að láta akkúrat þá axla ábyrgð á gjörðum sínum — alltaf, ekki bara stundum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)