154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Já, það var einmitt fyrrum heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sem fór í þessa vinnu í kjölfar þingsályktunartillögu Pírata sem var samþykkt, eða alla vega var Birgitta Jónsdóttir með á henni á sínum tíma. Mjög góð vinna kom úr því sem hefur tekið ótrúlega langan tíma að framfylgja. Fullt af atriðum átti eftir að vinna áfram og þetta mál stoppaði dálítið.

Staðan núna er alvarleg. Kjarni ræðu minnar núna og áherslurnar og ástæðan fyrir því að ég er að leggja þetta mál fram í fimmta eða sjötta sinn er að staðan er mjög alvarleg í samfélaginu. Fólk er að deyja. Ótrúlega hátt hlutfall fólks hér á landi er að deyja úr ofskömmtun miðað við önnur lönd sem hafa farið þá leið að hætta refsistefnunni. Við sjáum það hér að fólk er ekki að hringja á aðstoð. Þetta eru ekki bara langt leiddir fíklar heldur líka ungt fólk sem er kannski að prufa sig áfram í einhverju partíi og lendir í mjög slæmum aðstæðum út af því að neytendavernd er engin þar sem vímuefni eru ólögleg. Fólk veit ekkert hvað það er að fá í vímuefnunum sem það kaupir og veit ekkert hvað það er að taka inn. Í fyrsta lagi er engin neytendavernd; kannski er ofskömmtun, kannski er eitthvert ofbeldi sem á sér stað í partíi, kannski er nauðgun eða eitthvað annað og þetta unga fólk treystir sér ekki ekki til að hringja í viðbragðsaðila út af því að það er hrætt við að lögreglan komi og refsi öllum. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki þörf á því að fara í brýnar aðgerðir? Ef við eigum ekki að afglæpavæða núna strax, hvað eigum við þá að gera til að koma í veg fyrir þessi dauðsföll, eða eru þau bara eitthvað sem við eigum að sætta okkur við?