154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um frumvarp sem ég verð að segja að mér hugnast alls ekki. Þetta frumvarp er flutt af stórum hluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins og má kannski segja að sé kunnuglegt úr þeim ranni. Ég tel að við ættum ekki að fara í neinar grafgötur með það að frumvarpinu er stefnt gegn kjarnanum í hinu íslenska vinnumarkaðslíkani. Íslenska vinnumarkaðslíkanið hefur þróast með löggjöf frá Alþingi, með kjarasamningum á vinnumarkaði og með úrskurðum dómstóla, sérstaklega Félagsdóms. Lykilatriði þess er að þeir kjarasamningar sem stéttarfélögin gera gilda fyrir allt launafólk og alla atvinnurekendur á því starfssvæði þar sem stéttarfélagið starfar. Það er óháð því hvort einstakir atvinnurekendur eða launamenn eru félagsbundnir. Þetta tryggir að allt launafólk njóti ábata af kjarasamningum og öllum eru tryggð lágmarksréttindi. Þetta vinnur til að mynda gegn félagslegum undirboðum, fyrirbæri sem er vaxandi ástæða til að hafa áhyggjur af í heimi hins hnattvædda kapítalisma. Mér finnst þetta eitt og sér vera ein rök gegn þessu máli.

Önnur mikilvæg stoð íslenska kerfisins er mikil aðkoma verkalýðsfélaganna varðandi það að halda utan um mikilvæg félags- og velferðarréttindi, svo sem hvers kyns menntunarsjóði, sjúkrasjóði og skráningu atvinnulausra. Verkalýðsfélögin reka einnig í samvinnu við atvinnurekendur hið almenna lífeyrissjóðakerfi, sem mörg samfélög sem horfa fram á síhækkandi meðalaldur horfa með öfundaraugum til. Ég hef áhyggjur af því að þessu fjöreggi þjóðarinnar og launafólks vilji flutningsmenn frumvarpsins fara að leika sér að og veikja. Það kerfi félagsaðildar að verkalýðsfélögum sem verið hefur við lýði hér á landi byggist á háu hlutfalli félagsbundinna og um það hefur verið víðtæk samfélagsleg sátt, sátt sem ég vona að við sem samfélag berum gæfu til að standa vörð um.

Þetta frumvarp er lagt fram á tímum þar sem staða launafólks sem veikast stendur á atvinnumarkaði verður fyrir sífelldum árekstrum. Við höfum séð ríka tilhneigingu atvinnurekanda til að þrýsta starfsfólki sínu í stöðu verktaka, oft með gerviverktöku. Afleiðingin verður réttminna starfsfólk sem safnar sér minni réttindum og hefur minna félagslegt öryggisnet ef aðstæður breytast hratt. Með sívaxandi fjölda starfsfólks af erlendum uppruna með takmarkaða reynslu af íslenskum vinnumarkaði og veikara félagslegt bakland eykst enn hættan á misnotkun og kúgun.

Verkalýðsfélögin hafa í mínum huga ekki verið eins mikilvæg í langan tíma. Ég tel að nú ættu metnaðarfullir þingmenn að leita leiða til að styrkja kjör launafólks, koma í veg fyrir að það sé hægt að komast upp með að brjóta á því, koma í veg fyrir launaþjófnað og gera allt sem hægt er til að styrkja stöðu fólks á vinnumarkaði en ekki veikja hana. Nái þetta frumvarp hins vegar fram að ganga þá veikir það stöðu launafólks gagnvart atvinnurekendum. Þess vegna ætla ég að vona að frumvarpið fari bara inn í nefnd og komi ekki þaðan út aftur, en ef það kemur út get ég ekki stutt það og mun greiða atkvæði gegn því.